Saga - 1987, Síða 210
208
BERGSTEINN JÓNSSON
hafa sjaldan eða aldrei hamlað honum eða háð, svo að séð verði að hann hafi
fyrir slíku fundið eða sárnað undan þeim.
Eitt sem rit þetta einkennir er mikill fjðldi nafngreindra persóna. Virðist
mikil vinna hafa verið í það lögð að hafa upp á fullu nafni herskara fólks, sem
varla eða ekki er nefnt nema í upptalningu, og meira að segja maka þess. Því
miður hefur þetta lofsverða átak þó ekki reynzt einhlítt, Hómer hefur öðru
hvoru dottað og nokkur nöfn eða föðurnöfn þá brenglazt í meðförum. Þá má
á það benda að Bjarni Jónsson frá Vogi var fæddur í Miðmörk undir Eyjafjöll-
um. Hann var að minnsta kosti kominn á tíunda ár þegar faðir hans fluttist
að Vogi.
í síðara bindi segir einkum af því þegar höfundur reis sem óðast til virðing-
ar og metorða. En þá fær frásögnin á sig hálfgerðan skýrslublæ, þar sem
asazt er yfir legíónir manna og málefna. Meira að segja stórir sigrar og glæsi-
leg ,mónúment' eins og Borgarfjarðarbrúin fljúga fram hjá næstum örar en
auga á festir.
Nánast eins og af hendingu skýrir Halldór frá því að móðir hans var systir
hins mikilhæfa gáfumanns og krossbera, Sigurðar Kristófers Péturssonar,
sem frá unglingsaldri var sjúklingur á Laugarnesspítala. Það er Halldóri líkt
að miklast ekki af þessum frænda, en sá skyldleiki hefur án efa verið þungur
á metum, þegar Jónas afréð að stuðla að þroska hjá syni fátæku ekkjunnar í
Bár.
Halldór lýsir foreldrum sínum af sonarlegri aðdáun og hlýju, en hann er
blessunarlega laus við þann ættarrembing, sem óþarflega oft lýtir annars
ágætar æviminningar. E.t.v. er það af þessu lítillæti að hann lætur þess ekki
getið, ekki einu sinni neðanmáls, þegar Margrét systir hans, sem varð hon-
um samferða í Reykholtsskóla haustið 1935, komst sem snöggvast á þing,
tók nokkrum sinnum sæti þar sem varamaður árin 1960-63. En hún mun að
vísu ekki hafa verið í Framsóknarflokknum þá.
Saga Halldórs E. Sigurðssonar fjallar um farsælan dugnaðarmann, sem
gerir sér ljóst að hann hefur ávaxtað pund sitt mætavel, að minnsta kosti
þessa heims. Hann er ekki tiltakanlega bljúgur af þessu tilefni, enda laus við
trúarbragðaleg lífsviðhorf, þó að ekki sé að efa að hann sé hinn þokkalegasti
lúterstrúarmaður á íslenzka vísu, alinn upp af guðhræddri móður eins og
hann segir. Rétt eins og aðrir íslendingar hefur hann stöku sinnum fengið
vitranir i draumi, en kunnugir segja að fátt greini þorra Islendinga meira frá
sambærilegu fólki í nálægum löndum en mögnuð trú á alls kyns dulvitranir
og fyrirboða. En einnig i þessu tilliti er Halldór hófsamur. Þakki hann ein-
hverjum öðru fremur velgengni sína, er mér næst að halda að hann nefndi
ekki aðra fremur en móður sína og Jónas frá Hriflu. Mundu fæstir lesendur
bóka hans þá rengja hann.
Eftir því sem ég fæ séð er hvarvetna satt og rétt skýrt frá svokölluðum
staðreyndum, og mat á fólki og málefnum er yfirleitt hófstillt og sanngjarnt.
En ég endurtek, að á víð og dreif skýtur upp ónákvæmni, sem hægt hefði
verið að sneiða hjá, t.d. með yfirlestri kunnugra. Enginn hefur óskeikult
minni, svo að hann þurfi ekki í smiðju til annarra. Þann veg lítillækkar hann
sig ekki, þvert á móti.