Saga - 1987, Qupperneq 265
RITFREGNIR
263
Frank Ponzi: ÍSLAND Á NÍTJÁNDU ÖLD. Leiðangrar og
listamenn. Almenna bókafélagið. Reykjavík 1986. 159 bls.
Myndir og skrár.
Nokkur nýbrigði urðu í sögu íslands árið 1772. í sjálfu sér voru þau ef til vill
ekki ýkja markverð í augum samtíðarinnar, en áttu þó eftir að marka spor í
tilvist þjóðarinnar nokkrum áratugum síðar, á dögum Napóleonsstyrjald-
anna.
Þetta var koma Sir Joseph Banks og félaga hans síðla ágústmánaðar inn í
Hafnarfjarðarhöfn. Hér var kominn fyrsti vísindaleiðangurinn, sem farinn
var af þegnum erlends ríkis, og fyrsti túristahópurinn, sem beindi för sinni
til íslands og átti eftir að draga langan slóða og sívaxandi.
Þetta var fyrir daga Ijósmynda, svo að ekki sé minnst á ljósmyndir í litum.
En þá eins og nú langaði ferðamanninn til þess að taka heim með sér eitthvað
af áhrifum þess sem bar fyrir augu í ferðinni. Þeir vildu geta fært vinum og
vandamönnum, og lesendum ef í það fór, eitthvað af þeim furðum sem urðu
á vegi þeirra í landslagi og þjóðháttum líttkunnra landa og þjóða. Þeir sem
að þessu kepptu urðu annaðhvort að vera drátthagir sjálfir eða hafa slíka
menn með sér. Að þessu sinni var á ferðinni auðugur mennta- og listunn-
andi, sem vílaði ekki fyrir sér að taka með í förina hóp vísinda- og myndgerð-
armanna. Meðan þeir dvöldust á Islandi, gerðu þeir fjölda mynda, og eru
þær hinar merkustu heimildir um mannlíf og þjóðhætti eins og þeir voru fyr-
ir tveimur öldum. Flestar eru myndirnar svart/hvítar, en þó eru þar allmarg-
ar vatnslitamyndir, enda voru þrír leiðangursmanna nafnkunnir málarar
síns tíma.
Nokkrum árum síðar, eða 1789, sótti annar breskur vísinda- og ferða-
mannaleiðangur á sömu slóðir undir forystu annars hefðarmanns, Sir John
Stanleys. Þar voru einnig drátthagir menn í för, og foringi fararinnar fór sjálf-
ur vel með vatnsliti. í frumgerð eru flestar myndirnar í svart/hvítum drögum
ætluðum til að vinna úr síðar. Þegar heim kom, tóku sig til tveir nafnkunnir
málarar, Nicholas Pocock og Edward Dayes, og gerðu vatnslitamyndir eftir
nokkrum af frumdráttum ferðalanganna.
Myndirnar úr Banks-leiðangrinum lentu að honum látnum í British Mus-
eum (nú British Library). Þótt þeirra sé getið í prentuðum safnskrám, voru
þær samt flestum eða öllum ókunnar fram á þessa öld. Vatnslitamyndirnar
úr leiðangri Stanleys virðast hafa dreifst og komið í leitirnar smátt og smátt,
og er eins líklegt, að eitthvað af þeim kunni að dyljast enn á ókunnum
stöðum.
Árið 1980 komu út á vegum Almenna bókafélagsins 51 vatnslitamynd úr
leiðöngrum þessum: ísland á átjándu öld. Myndir úr leiðöngrum Banks og Stan-
leys. Frank Ponzi, bandarískur listsögufræðingur, sem hér hefur verið búsett-
ur um áraskeið, safnaði myndunum og annaðist útgáfuna.
Ferðamönnum fjölgaði þegar ný öld gekk í garð, og straumurinn hélt
áfram að aukast eftir því sem á hana leið. Og enn eru listamenn með í för eða
að minnsta kosti menn sem eitthvað kunnu til slíkra verka. Margir þessara
ferðalanga rituðu bækur um það sem bar fyrir augu þeirra á Islandi og birtu