Saga - 1987, Side 270
268
RITFREGNIR
dvalartíma hans þar, efnahag og búskaparháttum og hafi hann flutt af jörð-
inni, eru dvalarstaðir hans raktir til endadægurs. Greint er frá maka eða
mökum, séu þeir fleiri en einn, barnsmæðrum, barnsfeðrum og sambýlis-
fólki, ætterni og afkvæmi og oft raunar einnig kvonfangi afkomenda og bú-
setu. Þá fylgja mannlýsingar þar sem því verður við komið. Er þetta allt sam-
an hin dýrmætasta mannfræðináma, því að furðu víða er komið við sögu.
Æviþættir sumra ábúenda eru býsna langir. Ekki er óalgengt, að þeir séu
tvær bls. og dæmi eru um 5-6 bls. þætti. Það leynir sér ekki, að höfundur
þekkir vel prentaðar ættfræðiheimildir af þessum slóðum, þ.e. úr Skaga-
fjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, auk óprentaðra ættfræðihandrita, t.a.m. Espó-
líns og Péturs Zóphóníassonar, og ég fæ ekki betur séð en hann hafi dregið
sitthvað á land, sem áður var á fárra vitorði.
Að loknu Bújarða- og búendatali hefst þriðji aðalhluti ritsins, röskar 200
bls. Hann ber heitið Verslun og útgerð - þéttbýli í mótun. Þar er fyrst ágrip af
verslunarsögu. Mjög er það fróðlegt yfirlit, þó að stutt sé. Seinni helmingur
þess kafla er Æviþættir faktora frá 1792-1927. Er þar rakinn æviferill 20 fakt-
ora á Siglufirði, skýrt frá störfum þeirra, kvonfangi og afkomendum og
mannlýsingar gerðar, þar sem við varð komið.
í næsta kafla er fjallað um upphafsár Siglufjarðarkauptúns. Er þar í fyrstu
greint stuttlega frá húsum, sem reist voru í bæjarlandi Siglufjarðar fram til
síðustu aldamóta, en síðan eru æviþættir „nokkurra þeirra sem bjuggu á
Siglufirði á þessum tíma (líklega fram yfir aldamót), án þess að komast í
bændastétt, einnig nokkurra vinnuhjúa...". Alls eru þarna 43 æviþættir,
sumir talsvert langir.
Síðasti kafli ritsins er Hákarlaveiðar. Hann er saminn með hliðstæðum hætti
og undanfarandi kaflar. Fyrst er yfirlit um hákarlaveiðar fram á þriðja áratug
þessarar aldar, þegar þeim veiðum var hætt. Talin eru upp 25 skip. Þeim er
lýst, og saga þeirra er sögð í stuttu máli.
í bókarlok er um 100 bls. nafnaskrá.
Varla getur það dulist neinum, sem þessa Iýsingu Ies, að hér er á ferðinni
hið sérstæðasta merkisrit, hafi verið vel að verki staðið. Og að svo miklu
leyti, sem þekking mín hrekkur til mats, hefur höfundur vandað verk sitt vel
og fært sönnur á góða hæfni og smekkvísi. Stíll bókarinnar og málfar er lip-
urt og eðlilegt, og oft bregður fyrir skörpum leiftrum hins málhaga manns.
Höfundur er hófsamlegur í málflutningi. Hann virðist vera raunsær og
sanngjarn í mati sínu á mönnum og málefnum. Óragur er hann að geta í eyð-
ur, sem að sjálfsögðu eru margar í viðfangsefni sem þessu, en ágiskanir hans
eru ávallt studdar góðum rökum.
Þetta ritverk er iðandi af mannlífi í öllum myndum gleði og sorgar, karl-
mennsku, áræðni, breyskleika og dáða. Höfundur lætur sér yfirleitt nægja að
draga upp útlínur. Mikil örlög eru oft sögð í fáum orðum. Lesandanum er
látið eftir að lesa á milli lína og fylla í eyður. Og þar má vissulega margt
greina, ef athygli er beitt.
Eins og ég gat um í upphafi, er Sigurjón Sigtryggsson lítt kunnur sem
fræðimaður. Þeir sem eitthvað hafa gluggað í héraðsfræði hafa þó rekist a
nafn hans við og við. Hann átti t.a.m. allstóran hlut að Siglfirðingabók sem