Saga - 1987, Qupperneq 276
274
RITFREGNIR
greidd." Petta virðist vera óvarleg ályktun, og verður ekki með góðu móti
séð, að gjaldskylda hafi verið útflytjendum sérstakur hvati til rétts framtals
útflutnings. Útflutningsgjaldið, sem var ákveðið með lögum 1881, var löng-
um Iagt á síldar- og hvalafurðir. Allnákvæmur samanburður á síldarafla í
íslenskum og norskum heimildum hefur leitt hið gagnstæða í ljós, þ.e. að
margir freistuðust til að flytja saltsíld úr landi án þess að tíunda magnið fyrir
íslenskum stjórnvöldum. Hitt er rétt, að ástandið fór heldur skánandi, þegar
tímar liðu, en tölum virðist tæplega treystandi, fyrr en eftir stofnun Fiskifé-
lags og Hagstofu.
í heimildaskrá á bls. 157 eru nefndar dagbækur Benedikts Sveinssonar,
sem varðveittar eru í Landsbókasafni. Hér er Benedikt kenndur við Kirkjuból
í Norðfirði, þar sem foreldrar hans bjuggu og hann hefur líklega verið
fæddur. Benedikt dvaldi hins vegar meginhluta manndómsára sinna á Fjarð-
arbýlunum í Mjóafirði, og þar voru flestar eða allar dagbækur hans færðar í
Ietur. Þess vegna virðist miklu eðlilegra að kenna hann við Fjörð eða Fjarðar-
kot. Hér er þó líklega fremur við skráningarreglur Landsbókasafns að sakast
en höfund bókarinnar.
í bókinni eru 32 ljósmyndir, misjafnar að gæðum sem vonlegt er með
myndir frá Iöngu liðinni tíð. Margar þeirra hafa ekki birst áður, og er að þeim
verulegur fengur. Þá eru töflur, kort og línurit til skýringar, og hefur þar víð-
ast hvar tekist vel til. Pó má benda á, að á korti á bls. 127 yfir fundarstaði, þar
sem málefni hvalveiða voru rædd, vantar Keldunes í Norður-Pingeyjar-
sýslu, en þar var fundur haldinn, sbr. texta á bls. 125. Þá er það galli á súluriti
á bls. 109, að gleymst hefur að merkja lóðhnit með einingum.
Málfar höfundar er yfirleitt slétt og fellt. Það er ekki rismikið eða mynd-
auðugt, og oft virðist svo, sem hinar ströngu fræðilegu kröfur setji orðafari
hans of þröngar skorður. Eiginlegar málvillur finnast varla, en með hóflegri
smámunasemi má finna atriði, sem betur hefðu mátt fara. Á bls. 34 er raett
um „bók Johann Anderson". Þarna hefði farið betur að hafa a.m.k. annað
nafnið og helst bæði í eignarfalli. Á bls. 61 segir: „Iðnbylting var þá lengra a
veg komin í Svíþjóð en í Noregi ...". Þetta hefði mátt orða með meiri reisn.
Ekki fellur mér í geð slangurorðtakið „að berja augum" á bls. 100. Á bls. 143
er eftirfarandi málsgrein: „í hvalstöðinni unnu nær einungis íslendingar, en
veiðistjóri var Ebeneser Ebenesarson ættaður úr Önundarfirði, sem unnið
hafði við hvalveiðar hjá Hans Ellefsen." Hér hefði tilvísunarsetningin farið
betur framar í málsgreininni.
Þá er ótalinn einn stílfræðilegur kækur, sem höfundur virðist hafa. Ég hef
ekki talið þær málsgreinar, sem byrja á orðinu „eins", en þær eru óskaplega
margar. Nú getur hver litið í eigin barm, og hygg ég, að flestir, sem við blek-
iðju fást, hafi staðið sjálfa sig að hliðstæðum syndum. Endurlausn þeirra fá
menn aðeins með vönduðum yfirlestri annarra. Hér er enn komið að þvi,
sem áður var vikið að. Þessa bók, sem er nauðsyn á okkar dögum og er að
ýmsu leyti vel gerð, hefði mátt gera miklu betri, ef handritið hefði verið lesið
nákvæmlega yfir á síðasta stigi af mönnum, sem höfðu þokkalega þekkingu
á efninu og vilja til að beita henni og kunnáttu sinni í sagnfræðilegum
efnum, til þess að bókin mætti vera sem best úr garði gerð.