Saga - 2003, Blaðsíða 142
140
HELGISKÚLIKJARTANSSON
stúf við ríkjandi viðhorf til ofbeldis, hryðjuverka og hnefaréttar.
Það er merkilegt hvað íslensk fornrit gera þennan blóðuga at-
vinnuveg að sjálfsögðum og nánast jákvæðum þætti í lífi
forfeðranna,6 og ennþá merkilegra hve langt fram á 20. öld
Islendingar töldu sér sóma að þvílíkri fortíð. Eftir núgildandi
hugsunarhætti er það hins vegar geðfelld tilhugsun að landnám á
Islandi hafi einmitt verið hin friðsæla andstæða við víkinguna,
valkostur þeirra sem ekki lögðust í hernað, eða þeirra sem sáu að
sér og hættu við ræningjalífið.
Hins vegar er Island óneitanlega afkvæmi víkingaaldar, ekki
einungis þannig að frumbyggjar þess hafi komið af sömu slóðum
og ræningjarnir sem fóru herskildi um löndin kringum Norðursjó,
heldur verðum við að skilja landnám Færeyja, Islands og
Grænlands, og í framhaldi af því landafundina í Vesturheimi, sem
þátt í sömu útþensluhreyfingu norrænna manna og víkinga-
ferðirnar sjálfar. Þessa tengingu íslandssögunnar við umheiminn
getum við tæplega neitað okkur um, hvorki í ferðaþjónustunni né
t.d. í skólakennslu.
Hér er orðanotkun líka til trafala. A íslensku (fornri jafnt sem
nýrri) er „víkingur" aðallega starfsheiti og kannski réttast að ein-
skorða notkun orðsins við þá merkingu. Þó er „víkingaöld" fast
hugtak um það tímabil í sögu norrænna þjóða sem einkennist af
umsvifum víkinganna, og erfitt að sniðganga með öllu hugmynd-
ir um „víkingamenningu" og annað slíkt. Á öðrum tungum gætir
þess meira að allt norrænt fólk á víkingaöld sé kallað „víkingar".7
Það á ekki síst við um enskuna. Þegar breskir áhugamenn um
sögu norrænna manna þar í landi hófu andóf gegn hinni brútölu
og blóðugu ímynd sinna manna, þá kom ekki til greina að hefja
6 Þar er þó misjafnlega á haldið. Þó að höfundur Njálu sendi sína bestu
menn, jafnvel sjálfan Gunnar á Hlíðarenda sem svo mikið þótti fyrir að
vega menn, í hernað að afla fjár, þá sýnir hann þá aldrei herja á byggðir eða
ræna af almenningi, heldur heyja þeir orustur við aðra víkinga og hirða
sjóræningjafjársjóði þeirra. Og heitið „víkingar" er haft um óvinina, ekki
um íslenskar hetjur. Fleiri fornrit fara líkt að þessu og Njála, en í öðrum
koma hetjurnar fram ófegraðar sem víkingar í verki, eins og í Eglu.
7 Þetta er eðlileg útvíkkun á merkingu. Með hliðstæðum hætti tölum við um
íbúa gamals milljónaríkis í Suður-Ameríku sem Inka, og voru þó hinir
eiginlegu „inkar" víst ekki nema fámennasta starfstéttin í því mikla ríki,
þ.e. keisararnir.