Saga - 2003, Page 199
ÞORSKASTRÍÐ í SJÓNVARPI
197
ekki; þeir kalla hátt, eins og drengurinn í ævintýri H.C.
Andersens, að keisarinn sé ekki í neinum fötum.25 Eins og gefur
að skilja verða söguhetjurnar oft óánægðar með þessa endur-
skoðun fræðimannanna. Margir þeirra sem börðust í andspyrnu-
hreyfingunni og sáu góða félaga láta lífið í baráttunni við
Þjóðverja staðhæfa að ungir galgopar séu með rannsóknum
sínum að sverta minningu hinna föllnu. Hvernig geti þeir líka
®tlað sér að vega og meta þessa flóknu sögu? Þeir þekki ekki
söguna því þeir reyndu hana ekki á sjálfum sér.26 Hér sést því
aftur bilið milli frásagna söguhetjanna og seinni rannsókna.
Túlkanir á þorskastríðunum hafa ekki vakið jafnheitar
umræður á íslandi og hernámið í Danmörku, í fyrsta lagi vegna
þess að þau voru auðvitað svo miklu veigaminni og snertu lítt eða
ekki daglegt líf fólks, en í öðru lagi vegna þess hve fáir fræðimenn
hafa lagst í víðtækar rannsóknir á þorskastríðunum. Verði
þróunin hér svipuð og í Danmörku má þó gera ráð fyrir að fleiri
fari að taka sögu þorskastríðanna til gagngerrar endurskoðunar.
Þar með er alls ekki sjálfgefið að „sameiginlegt minni" þjóðar-
innar um þau átök breytist mikið. Dönsku hemámsfræðingarnir
hafa einmitt fundið að þótt þeir endurskoði í gríð og erg þá halda
almenningur, fjölmiðlar og stjórnvöld sig frekar við gömlu út-
gáfuna af sögunni um einhuga þjóð og hetjudáðir.27 Og kannski
sú verði einnig raunin með íslensku þorskastríðin. Var ekki sagt
einhvern tímann: Hafa skal það sem betur hljómar?
Samantekt
Síðasti valsinn er vandað verk og vel unnið. I þáttaröðinni er að
finna fjörlegar og fróðlegar frásagnir sem em mikilvægar heim-
ildir um sögu þorskastríðanna. Eflaust hefðu margar þeirra
glatast ef sögumennirnir hefðu ekki verið beðnir um að segja sögu
25 Sbr. Claus Bryld, Kampen om historien. Brug og misbrug af historien siden
Murens fald (Frederiksberg, 2001), bls. 220-223.
26 Sjá Lauridsen, Samarbejde og modstand, bls. 23-26, og Henrik Lundbak,
Staten stærk og folket frit. Dansk Samling mellem facisme og modstandskamp
1936-47 (Kaupmannahöfn, 2001), bls. 7-8.
27 Bryld, Kampen om historien, bls. 224-225.