Nýtt Helgafell - 01.12.1958, Side 25

Nýtt Helgafell - 01.12.1958, Side 25
KRISTJÁN KARLSSON: Fjórar sögur frá Manhattan II Bókmenntanám Kyrrlátt októberkvöld fyrir nokkrum árum gekk drukkinn maður fyrir hraðfara bíl á Broadway við gatnamót, sem heita á kortinu Lincoln Square, þó að í daglegu tali beri þau ekki nafn, eða bæru ekki fyrr en nýverið, að þar var hafið að reisa mesta óperuhús heims. Þessi maður var Tom Van Buren, minni hátt- ar prófessor í fagurfræði við Columbiahá- skóla. Enginn ættingi fannst til að bera kennsl á líkið, en stúlkan hans, eins og kallað er í lögreglubókum (og í ljóðum), kom daginn eftir til að inna af hendi þessa kvöð. Hún barst lítt af í fyrstu og bar sjálfa sig ýmsum þungum sökum, sem erfitt var að henda reiður á, en lögregluforinginn, sem var ekki alls óvanur slíkum viðbrögðum, reyndi að tala um fvrir henni og tók í vandræðum sín- um að lýsa sem nákvæmast öllum atvikum. Prófessorinn hafði bersýnilega gengið fyrir bílinn vitandi vits, sagði hann eins og til að afsaka, að ekki væru tök á að koma lögum yfir hana. Það lá auk heldur engin leið yfir Broadway þarna. Prófessorinn hafði stefnt á afgirtan reit á miðjum gatnamótunum. Þar sem gamla Dantestyttan stendur, bætti hann við, en mundi jafnharðan, að fáir vegfar- endur taka eftir þessari lágu, fornfálegu lík- neskju. „Dante“, sagði stúlkan snöggt og hætti grátinum, „Dante, skáldið?“ En áður en lögreglumanninum gæfist kostur á að svara, setti að henni torkennilegan, óstöðv- andi hlátur. „Hann tók mið á Dante,“ sagði hún hvað eftir annað, „hann tók mið á Dante. Hann gat ekki einu sinni fyrirfarið sér á sama hátt og annað fólk.“ Þegar hún stilltist loks- ins, flutti lögreglan hana heim til hennar á dálítið hótel á 8. street niðri í Greenwich Village. Með þessu var lokið skiptum lög- reglunnar og Sally Adair, ástmeyjar Tom Van Burens, nema hvað lögreglan spurðist fyrir um við enskudeildina á Columbia, hvort Van Buren hefði ef til vill lagt stund á Dante. Svo var ekki, Tom Van Buren fékkst við nútímabókmenntir, og Teddv Winslow, sem var álitinn fyndnastur þeirra enskuprófessora, sem ekki höfðu alveg náð fertugu, lét svo ummælt í ágætu háði, að Van Buren myndi aldrei hafa lagt út í þá samkvæmislegu áhættu að hitta fyrst fyrir hinum megin mann eins og Dante, sem óvíst var að hefði heyrt hans getið. En hvort sem Sally Adair hafði rétt fyrir sér eða ekki, þá lágu til þessa atburðar á Lincoln Square að einhverju leyti þær or- sakir, sem nú skal greina. Sally Adair var, þrátt fyrir dansmeyjar- nafn og ofurlitla forfrömun, sveitastúlka frá Hammondsport uppi við vötnin í ofanverðu New York fylki og hafði komið til Manhattan árinu áður til að gerast rithöfundur eða kjóla- dama eftir atvikum, og þar sem hún var lag- leg stúlka og vel vaxin, reyndist síðari kost- urinn auðveldari og hún fékk atvinnu í búð á Madison avenue. En endurminningin um fyrsta elskhuga hennar, smávaxinn, laglegan ítala í Cornell University uppi við vötnin og ástríðu hans að læra að skrifa bækur,

x

Nýtt Helgafell

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Nýtt Helgafell
https://timarit.is/publication/1049

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.