Stígandi - 01.03.1949, Blaðsíða 26
sem fyrri voru hinar skrautlegustu vörusýningar í hverjum
glugga um endilangar götur, var nú næstum ekkert að sjá. Ein og
ein flík var hengd út í gluggana: Karlmannsjakki, hattur eða
sokkar, kvenkjóll eða þess háttar. Og seinna komumst við að
raun um, að margt af því er sýnt var, var alls ekki til sölu, jafnvel
þótt skömmtunarseðlar væru fyrir liendi. Ekki voru viðbrigðin
rninni við matarbúðirnar. Þær voru fyrrum fullar af alls konar
kræsingum, og venjulega stóð fólk þar í stórhópum, ekki til að
bíða eftir afgreiðslu, heldur til að ráðslaga um, hvað kaupa skyldi,
og ég held jafnvel til að njóta í huganum þess kjörmetis, sem til
sýnis var. En nú voru búðir þessar tómar að mestu. En á degi
hverjum biðu þar að vísu hópar fólks til þess að fá útdeilt litlum
skammti af kjöti eða feitmeti. Það þurfti þannig ekki að litast
lengi um til að sjá, að margt vantaði og þjóðin sparaði. Að vísu
virtist það sízt meira en í Noregi, en hér átti ég hægt um saman-
burð við liðinn allsnægta tíma. ,
Klæðnaður fólksins sýndi hið sama. Saknaði ég mjög hinna
* ljósu og skæru lita, sem svo mjög einkenndu klæðnað Hafnar-
stúlknanna á vorin áður fyrr. Nú virtist mér allir gi'áklæddir.
Svipur fólksins hafði tekið sömu breytingum. Brosið og glað-
værðin, sem einkenndi Hafnarbúann, virtist að mestu horfið, en
hálfgerður þunglyndis- eða vonleysisblær kominn í þess stað. Inni
á kaffihúsunum sátu menn þögulir, og var sem hver og einn
kepptist við að ljúka þeim skammti, sem honum hafði verið
reiddur.
Ég hafði orð á þessu við kunningja minn. Þótti honum sízt
furða, þó að mér þætti nú Höfn með öðrum svip en hún var á
skólaárum okkar. En þó tjáði hann mér, að miklu væri allt nú nær
því að færast í gamla horfið en á fyrstu árunum eftir stríðslokin.
Mun það og rétt, að smám saman máist brott þær rúnir, er hörm-
ungar stríðsins ristu.
Það er víst, að Danir eiga við marga erfiðleika að etja eins og
fleiri þjóðir. Gæta þarf hins fyllsta sparnaðar, því að margt verða
þeir að kaupa, en útflutningur takmarkaður. En þeir örðugleikar
einir gefa þó engan veginn fulla skýringu þess, sem hér hefir ver-
ið lýst um breytinguna á fólkinu. Hitt mun sanni nær, að þjóðin
hafi beðið tjón á sálu sinni við þrengingar stríðsins. Hin óvirka
mótstaða gegn yfirgangi nazistanna hefir orðið henni ofraun, og
skapað einhvers konar minnimáttarkennd, þegar þeir hafa borið
saman afstöðu sína og t. d. Norðmanna. Óöld sú og agaleysi, er
96 STÍGANDI