Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2002, Page 126
GAUTI SIGÞORSSON
ekki til ein algild skilgreining á menningarfræði í sjálfri sér, og hið sama
á við um tæknihyggjuna, en það eru til samsetningar eins og RAE-menn-
ingarfræði-Birminghamháskóli-ríkisfjárveitingar sem kanna má og bera
saman við aðrar. Sumum samsetningum má líkja við eitrun. Eitur er ekki
eitrað í sjálfu sér, einungis þegar það gengur í samband við önnur efni,
aðrar samsetningar sem það raskar eða eyðileggur. I þeim skilningi er
það eitruð tæknihyggja sem felst í því að skera niður háskóladeild af því
að hún uppfyllir ekki nógu vel eina af þeim mörgu kröfum sem gerðar
eru til stofnana á háskólastigi, eða í því að meta hæfhi kennara á þröng-
um forsendum eins og kennslumati í lok námskeiðs. Það er augljóslega á
ábyrgð okkar sem lifum og hrærumst í hugvísindunum að læra að gera
grein fyrir okkar starfi og gagnsemi þess á forsendum fjárveitingavalds,
stjórnenda og matsnefnda, rétt eins og við gerum grein fyrir þessari
gagnsemi gagnvart nemendum okkar og almenningi. Þess vegna neyð-
umst við til þess að líta á fögin okkar í ljósi hverfulla stofnanna sem eru
hluti af samsetningunni sem við köllum menningarfræði - vistkerfið sem
hugsun, rannsóknir, útgáfa og kennsla þrífast í. Þegar hér er komið sögu
er það hættuleg tímaskekkja að menningarfræðingar setji sig einfaldlega
gegn fagskiptingum og stofnunum í nafni óljósrar hreinhyggju og sann-
færingar um eigin róttækni og gagnrýna afstöðu, af þrí það býður upp á
varnarleysi gagnvart þeim afbrigðum tækni- og markaðshyggju sem helst
vilja sjá okkur kennsluþjónana skila af okkur útreiknanlegum virðisauka í
námskeiðum, ánægðum háskólanámsneytendum, og mælanlegum af-
köstum í rannsóknum og útgáfu.
124