Tímarit Máls og menningar - 01.09.1960, Blaðsíða 67
NOLDUR
Hvers vegna ferð þú þá ekki? Kannske þú yrðir fljótari.
Það er ekki í mínum verkahring, sagði konan og tók aftur upp sleggjuna og
fleyginn eins og hún ætlaði að halda áfram að reyna að koma honum í tréð,
en lét þau svo bæði síga.
Það er ekkert fremur i mínum verkahring en þínum ætla ég bara að segja
þér. Ef það er í þínum verkahring, eins og þú segir, að ná í þetta korn þitt og
sleppa honum út, er það alveg eins þitt að sækja hann. Þó ég hafi gert það
hingað til þegjandi og hljóðalaust.
Konan gaf frá sér fyrirlitningarhnuss. Ja, svei. Varst það ekki þú, sem
keyptir hann? Er hann ekki þinn hundur?
Jú, og hvað um það? Er það einhver afsökun fyrir þig að sleppa honum út?
Er það þá ekki þín skylda að gæta hans?
Hvers konar vitleysis þrjózka er þetta í þér! Það er mín skylda að gæta hans
á meðan hann er með mér, og það geri ég líka. Og það er líka gæzla í að loka
hann inni í kofanum, ef þú skilur það. Nema þú sért svo hugsunarlaus að þú
vitir ekki hvað þú ert að gera. Maðurinn horfði á hnakkann á konunni, sem
sat á trénu. Þrjózkuhaus!
Ætlarðu að halda áfram við þetta, eða hvað? spurði konan og reis upp á
ný og stóð hokin yfir trénu með sleggjuna og fleyginn í sitt hvorri hendi og
beið.
Nema þú hafir gaman af að sjá mig eltast við óþarfa hluti. Það væri svo sem
eftir þér og öðrum þrjózkukindum eins og þér. En ég verð bara að segja það,
að það er aumt gaman og lítilmótlegt.
Ætlarðu að halda áfram eða ég er farin.
En maðurinn ætlaði ekki að halda áfram. Þú hefur kannske gaman af að
sjá manninn þinn gera sig að fífli í augum annarra. Hvað heldurðu að fólk
haldi niðri í þorpi þegar ég er alltaf að leita að hundinum. Það heldur víst að
ég sé ekki mikill fjármaður.
Hvað varðar mig um það, hreitti konan út úr sér.
Þarna er þér rétt lýst. Hvað heldurðu að þig varði um það þó maðurinn
þinn sé gerður að athlægi! Nei, þér er víst hjartanlega sama, ef ég þekki þig
rétt. Og þarf ekki að þekkja þig. Enda ertu nýbúin að viðurkenna það. En það
eru áreiðanlega fleiri en ég, sem sjá í gegnum þig og vita hvernig þú ert. Fólk
er nú ekki svo blint. Það sér í gegnum aðra eins manneskju eins og þig.
Ætlarðu að halda áfram? spurði konan á ný.
Ætlar þú að halda áfram að gera það, sem þú gerir?
Ég er þá farin. Ég nenni ekki að standa í þessu lengur.
TÍMARIT MÁLS OC MENNINGAIÍ
305
20