Tímarit Máls og menningar - 01.05.1962, Blaðsíða 52
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
saman svo tíminn héldi ekki áfram að renna á milli til að halda í hið dvalar-
lausa líf einnar manneskju sem var þó glatað.
Hin sem kom úr nóttinni var með svo stóran og rauðan munn, þykkar
varir og bólgnar af bríma lostans. Og hárið var farðað ljósgult, svartar brár
og augun dimm og stundum sýndist í þeim gult en stundum nærri svört,
kannski vottaði fyrir rauðu í myrkum þangfléttum sem veifðust í djúpi fyrir
bylgjum í þaraskógi. Og þar sveimar þessi næturdís með langa limu, og myrk-
viðinn í skauti þar sem ríktu púma og tígris; og yfir sviðinu leyndust svartir
merðir í slútandi limi yfir dimmum þröngum stígum með eld úr myrkrinu
milli hvasssorfinna tanna brimsins.
Og þegar maðurinn dansar svona um fjólublátt engið og hallar höfðinu
aftur í dansinum þá horfa fuglarnir sem týndu máli, þeir sjá þá dísir þessar
stíga upp úr djúpi: svart hárið flettist upp, innsiglin rofin, glerungurinn yfir
því springur af hljómi. Sem er of hár fyrir eyru manna að heyra.
Þær rísa þá af nótt og degi og vefjast saman í ballett hafsins, á þessu hafi
líkt og skuggar af fuglum sem geta ekki skilið að fullu með heift sinnar blindu
ástar og leita hvor annars, hrökkva síðan hvor frá öðrum lemjandi vængjum
hinn hataða elskara sinn í þeirri mynd og höggvandi með goggnum svarta sem
er brýndur fram í hvítt leiftur, heggur honum í efnislausa mynd hins í spegli.
En þetta voru ekki lengur tveir vígreifir og óttaslegnir fuglar, heldur tvær
konur. Voru þetta þá tvær konur?
Hvað gerðu þær?
Voru þær að dansa? Þessar tvær konur. Meðan maðurinn sat undir trénu
mikla og hljóða, lauf þess niðaði af vindinum á þeirri nóttu. Maðurinn sat
með bakið að bol trésins og blóðlaust og náhvítt andlit, augun svörtu galopin
og stjörf, það var eins og skörungur hefði verið rekinn á kaf í hvít sjáöldur
glákómublindingjans til að skara í eldi geðsins.
Hendur niður með síðum, slappur munnurinn opinn á gátt, svartur og tann-
laus, og hjartavöðvarnir brostnir.
Og vindurinn ýfði þetta svarta hár, fletti því upp eins og fjöðrum á dauðum
hrafni, lyfti því öllu í einu líkt og pilsi upp um konu. Undir var opin höfuð-
kúpan hvít og skafin innan. Þar flaug stór gulröndótt og svört fluga, og suð-
aði síðan inni, svo flaug hún út, og söngur hennar hvarf.
Þannig hverfur hin svarta heita nótt frá sínum andaða vin, réttir mannlífið
dofið af værðum í hendur hins andvaralausa dags sem er að fæðast vafinn
fölum slæðum. En nóttin skilur eftir spor úr öllum augum myrkurs síns: titr-
andi eðalsteina í grasi sem springa fyrir þeim mennska fingri sem snart þá.
144