Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Page 10
Tímarit Máls og menningar
og orðið allt í senn ríkur, valdamikill og frægur. Með dvínandi stéttarvitund og
stéttarsamstöðu hefur verkalýðurinn tileinkað sér þennan boðskap og beint
honum gegn sjálfum sér. Það er nánast talinn aumingjaskapur að sitja eftir í
stéttinni, koma sér ekki áfram, vinna sig ekki upp. Hetjur stéttarinnar eru þau
sem tekist hefur að yfirgefa hana. Meðal þeirra er verkalýðsforystan, fólk sem eitt
sinn vann launavinnu og var þarafleiðandi svosem ekki neitt neitt en er nú hætt
því fyrir löngu og orðið, reyndar ekki ríkt, en bæði frægt og valdamikið, menn
með mönnum, þ. e. menn meðal höfðingjanna.
Þarna hafa hugsandi verkalýðsforingjar fundið sinn annan snertiflöt við
Albert Guðmundsson. Þeir eru „self-made“ einsog hann.
Fyrirgreiðslupólitík og góðgerðastarfsemi Alberts og hans líka hvíla á
gamalkunnum hugmyndagrunni: Við lifum í gölluðum heimi þar sem hinir
veiku eiga ævinlega í vök að verjast, en af því heimurinn er óbreytanlegur í
höfuðatriðum og óhugsandi að hinir veiku geti hætt að vera veikir, þá verður
þessu ástandi ekki breytt, það verður aðeins dregið úr annmörkum þess með því
að hinir sterku komi hinum veiku til hjálpar, hinir ríku séu góðir við hina
fátæku, hinir valdamiklu greiði götu þeirra valdalausu, yfirmenn séu miskunn-
samir við undirmenn, stjórnendur við hina stýrðu o. s. frv.; annarsvegar eru
smælingjar, hinsvegar þeir sem hafa tækifæri til að vera góðir við smælingjana. í
praxís verður þetta að hátterni sem við getum kallað smælingjapólitík.
Albert er mótsagnakenndur smælingjapólitíkus. Hann er vinsamlegur
smælingjunum sem einstaklingum og væntanlegum kjósendum sínum; hver og
einn er skjólstæðingur hans. En hann er fjandsamlegur þeim sem heild; þeir
skulu halda áfram að vera smælingjar, þeir skulu arðrændir og kúgaðir og
alþingi á að skerða hjá þeim verkfallsréttinn. Þessa mótsögn reynir hann hvorki
að leysa né afsaka. Hún er sjálfsagður hluti af tvískinnungi borgaralegrar
siðfræði.
I smælingjapólitíkinni hafa hugsandi verkalýðsforingjar trúlega fundið sinn
höfuðsnertiflöt við Albert Guðmundsson. Þeir eru ekki aðeins fyrrverandi
smælingjar sem hafa komið sér í þá aðstöðu að geta verið góðir við smælingjana
einsog hann, þeir aðhyllast hugmyndir hans í þessum efnum og keppast við að
lifa í samræmi við þær. Hér á ég ekki aðeins við þá fyrirgreiðslupólitík sem
margir verkalýðsforkólfar stunda í samtökum sínum þar sem seta í stjórnum og
nefndum ásamt viðeigandi samböndum í ótal áttir er notuð til að gera Jóni og
Gunnu persónulega greiða, redda þeim um hitt og þetta, oftast sjálfsögð
réttindi. Ég á fyrst og fremst við þá pólitísku afstöðu sem verkalýðsskrifræðið
hefur almennt til stéttarinnar sem heildar.
264