Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Page 12
Tímarit Má/s og menningar
Þarna hafa hugsandi verkalýðsforingjar ekki aðeins fundið snertiflöt við
Albert Guðmundsson heldur sameiginlega hagsmuni. Þrátt fyrir ólíka stöðu í
valdapýramídanum eiga þeir meiri samstöðu með honum en því fólki sem þeir
telja sig vera að verja. Sem smælingjapólitíkusar eiga þeir, einsog hann, framtíð
sína undir því að fjöldinn haldi áfram að láta stjórna sér, haldi áfram að hlíta
forsjá þeirra sem telja sig kjörna til að ráðskast með líf hans og umhverfi.
Af þessu má Ijóst vera að stuðningur Aðalheiðar og Guðmundar J. við
forsetaefnið Albert Guðmundsson var rökrétt pólitísk afstaða fremur en villuráf.
En þá er ósvarað spurningunni hversvegna verkalýðsskrifræðið allt fór ekki að
dæmi þeirra. Þetta er flóknara og dularfyllra mál en svo að ég treysti mér til að
svara því til hlítar. Eg get mér þess aðeins til að svarsins sé að leita í hinum fínni
blæbrigðum hugmyndafræðinnar, t. d. þeirri rótgrónu trú „vinstri“-manna að
pólitíkusar Sjálfstæðisflokksins séu vondir í sjálfum sér, heildsalar enn verri og
verstir þeir sem flytja inn áfengi; eða þeirri bábilju úr bændasamfélaginu að
fyrirmenn verði bæði að geta komið fyrir sig orði og vitnað í ljóð þjóðskáldanna.
Ef þetta er rétt tel ég víst að Albert sé búinn að koma auga á það og draga af
því magnaða lærdóma. Næst þegar hann býður sig fram til forseta verður hann
því væntanlega búinn að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum, hættur að flytja inn
og kominn með milljónirnar í „þjóðlega atvinnuvegi“, orðinn mælskur eftir
nokkur Dale Carnegie námskeið og búinn að læra þó ekki sé nema fáeinar
stökur. Þá er það trú mín að allir verkalýðsforingjar þekki sinn vitjunartíma og
skilji til fulls, að íslenska þjóðin þarfnast þess eins að konungur smælingjanna
verði höfðingi hennar og sameiningartákn svo lengi sem honum endist aldur.
Allt annað væri rökleysa, svo ekki sé minnst á hvað það væri ábyrgðarlaust
gagnvart smælingjunum, veslings smælingjunum.
,,Adrepur“ eru vettvangur frjálsra skoðanaskipta
266