Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Qupperneq 49
Hringurinn
dýrlegra en að láta bóndann draga sig ril þess að horfa á sauði, þá var það
þetta. Hún tók af sér hattinn stóra, lét hann svífa niður á grasið og sagði
bóndanum að bera hann heim fyrir hana, því að hún vildi finna goluna á
andliti sínu og í hári sínu. Síðan hélt hún heim á leið, löturhægt, eins og
hann hafði sagt henni, því að hún vildi hlýðnast honum að öllu leyti.
A leiðinni varð hún æ gagnteknari þeirri miklu gæfu að vera ein,
öldungis alein, Bísjú var ekki einusinni með henni. Hún minntist þess
ekki að hafa nokkru sinni fyrr farið alein í gönguför. Landslagið um-
hverfis hana ljómaði og þagði, það virtist fullt af fyrirheitum, og hún átti
það. Hún átti meira að segja svölurnar sem hnituðu hringa uppi í
háloftunum. Því að hann átti þær, og hún átti hann.
Hún gekk stíginn bugðótta fram með runnunum, og eftir skamma
stund sáu mennirnir við fjárhúsið ekki til hennar. Væri kostur á nokkru
ljúflegra, hugsaði hún, en að ganga þennan græna stíg, hægt, hægt, og
láta hann ná sér þar. Jú, datt henni þegar í hug, það yrði ennþá ljúflegra að
víkja af stígnum inn í skóg og hverfa þar — vera horfin af yfirborði jarðar,
þegar hann kæmi stikandi eftir örskotsstund, loksins orðinn þreyttur á
því að tala um kindur, með hjartað gagntekið þrá í hana.
Hugsun laust niður í hana og hún stansaði til þess að átta sig á henni.
Fyrir nokkrum dögum hafði bóndi hennar riðið brott til þess að fylgjast
með heyskapnum, en hún hafði sjálf verið þreytt og hafði ekki kært sig
um að fara með honum. Hún hafði þá ásamt Bísjú ráfað um til þess að
kanna ríki sitt. Bísjú hafði hlaupið á undan henni og hafði snuðrað
hvarvetna, hann hafði gelt og litið á hana og fengið hana með sér inn í
þennan sama skóg. Meðan hún var varlega að komast gegnum kjarrið var
hún allt í einu komin að rjóðri í því miðju, lítilli vin eins og lokrekkju
með gullingrænum ársal. Allt í einu hafði henni fundist að hér væri hún
í hjarta ríkis síns, og hún varð snortin mikilli gæfu. Æ, skyldi hún geta
fundið þennan heilaga, dularfulla stað aftur? Ef hún fyndi hann, myndi
hún standa þar dauðahljóð, dulin öllum heimi. Konráð myndi skyggnast
til allra átta í leit að henni, hann gæti ekki áttað sig á því, hvað orðið hefði
um hana. Eina andrá, áður en hún kallaði á hann, myndi honum skiljast
að fullu, hvílík auðn alheimurinn væri, skelfileg eyðibyggð, ef hún væri
ekki í honum. Hún leit íhugul á skógarjaðarinn til þess að finna aftur
303