Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Page 82
Tímarit Máls og menningar
háan hita, aðrar höfðu þrautir svo þungar að þær sváfu ekki nema með
svefnlyfjum, ein var bæði með háan hita og miklar kvalir og hafði ekkert
sofið þrátt fyrir svefnlyf. Samt voru þær allar ánægðar, brostu og vildu
ekkert láta fyrir sig gera.
— Þetta er merkilegt, sagði yfirlæknirinn.
— Hún Una er svo góð við okkur, sögðu þær. Og vonandi fer að
styttast í þessu hjá okkur. Það eru takmörk fyrir hvað hægt er að leggja á
eina manneskju.
— Sem sjúklingar hafið þið sjálfsagðan rétt til að leggja hvað sem er á
þá sem vilja ykkur vel, sagði yfirlæknirinn kurteis.
— Við erum svosem ekki neitt neitt, sögðu þær einum rómi.
— Ekki hvað?
— Ekki neitt neitt. Við þurfum engan rétt.
— Þetta er stórmerkilegt, sagði yfirlæknirinn hugsi og tók stofu-
ganginn með sér útúr stofunni og frammá gang.
Næstu daga dóu konurnar hver af annarri. í hvert skifti var yfir-
læknirinn viðstaddur ásamt yfirmanni allrar heilsugæslu í Borginni okk-
ar. Þeir fylgdust nákvæmlega með og létu taka síðustu orð hinna deyjandi
uppá segulband og skrá allra þeirra hegðun. Stundum litu þeir viður-
kenningaraugum á Unu, sem fór hjá sér af því hún var sannfærð um að
þrátt fyrir allt hefði hún getað verið sjúklingunum betri; já það hafði
meiraðsegja hvarflað að henni að hún hefði getað lengt líf þeirra með
annarskonar viðmóti.
— Nú er best að ég hætti, sagði hún við þá frammá gangi og röddin
titraði. Mér finnst ég hálfpartinn vera sek.
— Þvílík fjarstæða! sögðu þeir báðir í einu. Þú sem ert að vinna
stórkostlegt brautryðjendastarf sem trúlega á eftir að valda byltingu á
hinum ýmsu sviðum heilsugæslunnar, kannski víðar. Þú verður ekki
aðeins að halda áfram að vera hérna hjá sjúklingunum. Þú verður að halda
áfram að vera góð. Og þú verður að leyfa okkur að rannsaka hvernig þú
ferð að því að vera svona góð.
— En ég er ekki nógu góð, mótmælti Una og það var ekki laust við að
hún kenndi í brjósti um sjálfa sig á svipaðan hátt og hún kenndi í brjósti
um alla þá sem áttu bágt.
336