Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Síða 84
Tímarit Máls og menningar
— Tölfræðin er svo gamaldags, sagði þá rannsakandinn. Lífsþreyta
blönduð sáttfýsi við dauðann reiknast þar ekki sem eðlileg dánarorsök,
hún kemur út sem „ekkert“, og „ekkert“ er túlkað sem mistök. Yfir-
læknirinn átti því á hættu að vera álitinn mistakakóngur, það er að segja
lélegur læknir yfir lélegri deild. Þessvegna lét hann flytja þig þótt hann
hefði helst af öllu viljað hafa þig sem lengst.
— Eg er þá sek eftir alltsaman? sagði Una með beyg í rómnum.
— Vitleysa! Það er tölfræðin sem á sökina. Mátuleg lífsþreyta blönduð
sáttfýsi við dauðann er besti dauðdagi sem hægt er að hugsa sér. Svo er
hún ekki talin með! Hugsaðu þér! En hér á langlegudeildunum horfir
þetta öðruvísi við. Hér þjást allir af elli. Og þótt þeir deyi úr mátulegri
lifsþreytu blandaðri sáttfýsi við dauðann, heitir það samt elli á krufn-
ingaskýrslunum — og það tekur tölfræðin gilt.
Una þagði. Og það var sama hvernig hún velti þessu fyrir sér, hún gat
ekki losað sig við áleitinn grun. Samt hélt hún áfram að vinna sem fyrr og
lét einsog ekkert væri. En gæska hennar streymdi ekki eins eðlilega og
áður, hún kom í gusum einsog aðrennslið væri stíflað einhversstaðar. Það
virtist þó ekki hafa nein áhrif á sjúklingana, þeir kunnu að meta gæsku í
gusum ekkert síður en hina og dóu úr elli einn og einn einsog gera mátti
ráð fyrir. En þegar hún uppgötvaði einn daginn að þeir tórðu og tórðu
sem voru svo útúr heiminum að þeir heyrðu ekki til hennar, í raun þeir
veikustu, á meðan það varð brátt um hina og því bráðara sem þeir voru
skýrari í kollinum, þá gat hún alltíeinu ekki meir. Gæskan sat í hálsi
hennar einsog kökkur.
Hún gekk fyrir yfirlækninn og yfirmann allrar heilsugæslu i Borginni
okkar og sagði: — Nú veit ég það fyrir víst. Sjúklingarnir deyja annað-
hvort af því ég er ekki nógu góð eða af því ég er of góð eða af því ég er góð
á einhvern vitlausan hátt. Þessvegna er ég hætt.
— Hvað er að heyra þetta, sögðu þeir og lögðu hart að henni að halda
áfram, þó ekki væri nema í nokkra daga, því rannsókninni væri ekki alveg
lokið.
— Það er mikið í húfi, sagði yfirlæknirinn.
— Ekki aðeins fyrir heilsugæsluna, hélt hinn áfram, heldur fyrir
Borgarsamfélagið allt.
338