Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Side 100
Gunnlaugur Astgeirsson
„Á mjóum fótleggjum sínum
koma mennirnir eftir hjarninu ..
Um ljóð Stefáns Harðar Grímssonar
Um þessar mundir eru liðin um 30 ár frá þvi að mikil umbrot áttu sér stað í
íslenskri ljóðagerð. „Ungu skáldin“ sem kringum 1950 voru að gefa út sínar
fyrstu bækur eru nú orðin miðaldra og hafa að sjálfsögðu þróast í ýmsar áttir í
skáldskapnum sem og á öðrum sviðum. Þessi skáld, atómskáldin (Einar Bragi,
Hannes Sigfússon, Stefán Hörður Grímsson, Jón Oskar, Sigfús Daðason og e. t. v.
fleiri), hafa verið yrkjandi fram á okkar daga og þótt þeim hafi orðið mismikið
úr verki þá verður ekki horft framhjá því að verk þeirra eru meðal þess sem rís
hæst í íslenskum bókmenntum um miðbik þessarar aldar. Áhrif þeirra á yngri
skáld eru einnig ómæld, því flest skáld sem komið hafa fram á eftir þeim hafa
verið undir sterkum áhrifum þeirra og haldið áfram á þeirri braut sem þeir
ruddu.
Þegar nú er spurt hvað hafi verið að gerast í ljóðagerðinni fyrir 30 árum
þegar atómskáldin brutu burtu fúnar stoðir staðnaðrar skáldskaparhefðar, þá er
mönnum heldur greiðara um svör en þegar ríkjandi viðhorf var að líta á þessi
skáld sem menningarlega hryðjuverkamenn sem tortíma vildu íslenskri menn-
ingu. Það má svo sem til sanns vegar færa að íslensk menning hafi þá verið að
tortímast með nokkrum hætti, en þar voru ekki skáldin að verki heldur sú mikla
þjóðlífsbylting sem hér varð um og eftir seinni heimstyrjöldina. Það Island og sá
heimur sem til var fyrir stríðið er horfinn og nýr heimur og nýtt Island komið í
staðinn. Hér á landi varð menningarbylting, tæknibylting, lífskjarabylting auk
þess sem Island er hætt að vera einangrað sker úti í hafsauga og er statt á miðju
sviði heimsviðburðanna, peð í valdatafli stórveldanna. Eftir stríð er hér orðið til
það tæknivædda veiðimannasamfélag með vanþróuðum pilsfaldakapítalisma
sem við erum ennþá að reyna að skilja og stjórna með litlum árangri.
Það er þessi samfélagsbreyting sem kallar á nýjar aðferðir og nýja hugsun í
skáldskapnum. Skáldin gera það sem hver ný kynslóð verður að gera, að
endurskapa listina miðað við breytta tíma, en tímarnir breyttust mun örar en
354