Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Side 124
Tímarit Máls og menningar
ákveðið og ómótstæðilega, að sjálf hetjan Egill Skallagrímsson gerðist óðfús að
gifta dóttur sína, kvenskörunginn Þorgerði, syni írskrar ambáttar.
En norrænir landnemar tengdust keltum ekki aðeins sem ránsfeng víkinga.
Vestur um haf flúði fjöldi manns undan áþján og ofsóknum í Noregi og
tengdust fjölskylduböndum þeim, sem þar voru fyrir. í hópi þessara flótta-
manna voru ríkir og göfugir höfðingjar, sem varð auðvelt að renna saman við
þjóðflokk, sem hafði að meira eða minna leyti lagað sig að lífsvenjum og
þankagangi, sem kærleiks- og friðarboðskapur Krists hafði innrætt þeim. Sumir
þessara innflytjenda og/eða afkomendur þeirra rótfestust þar þó ekki, fréttu um
gósenland norður í höfum, enn ekki fullnumið, tóku sig upp og fluttu þangað.
Sumir þeirra fluttu á vegu vandamanna, sem þar sátu á fleti fyrir. Þegar þeir nú
færðu sig um set, höfðu þeir með sér fjölda þjónustuliðs frá hinum keltnesku
byggðum. Þrælar og lágt settir þjónar meðal þessa fólks voru fljótlega orðnir
bændur á smærri og stærri skikum í landnámi eigenda sinna og húsbænda, voru
þó þjónustumenn þeirra á einn og annan hátt enn um sinn, en nutu verndar
þeirra í lítt skipulögðu samfélagi. En norskir drottnarar og keltneskir undirsátar
hurfu af sviðinu innan skamms, en í stað þeirra var ný þjóð fædd í þennan heim
af blóðböndum norrænna flóttamanna í frelsisleit og fósturbörnum írskrar
kristni, sem ólu með sér drauma um samfélag friðar, vináttu og bræðralags. Það
er svo sem ekki sérkenni íslensku þjóðarinnar að vera samruni kúgara og
kúgaðra, en þess hygg ég fá dæmi, að úr yrði svo fullkomin heild, að öll skil
hyrfu, svo sem hér hefur orðið, enda mun torvelt að finna þess dæmi, að sá
samruni hafi orðið með svo skjótum og árekstralitlum hætti, sem hér varð
raunin á, og mætti það hafa haft sitt að segja til að kveikja andlegt afbrigði í
þjóðasafn þessarar jarðar.
Ollum er okkur kunn viðurkenning sú, sem gefin hefur verið víkingunum
forfeðrum okkar, að þeir tryðu á mátt sinn og megin. Mér fyndist eðlilegra að
segja, að þeir hafi trúað á lífið sjálft og hallað sér að því og daglegu umhverfi
þess í leit að lausn þeirra vandamála, sem almennt er annars leitað með til
trúarbragða. Á endurhæfingarskeiði þjóðar okkar á síðustu öld léku lofsöngvar
léttar á vörum hennar en nokkru öðru sinni, fyrr eða síðar. Þá vorum við
trúmenn að innstu hjartarótum. Við trúðum á landið og nutum unaðar og
trausts og fagnaðar í skauti þess. Á 9. öld fól Þorkell máni á dauðastundinni sál
sína í hendur þeim guði, sem sólina hafði skapað. Á 19- öld segir Steingrímur
Thorsteinsson: „Syngið aldnir með ungum / ... vegsemd honum, sem vorið ól.“
Sól, sumar, sælt suður, sem andar vindum þýðum, fífilbrekka, smáragrund og
berjalaut, bárugjálfur við sanda og brimalda við strönd, sólskríkja og lóa og
378