Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Side 149
Bertolt Brecht og Berliner Ensemble
verkum hans. Það er ekki ólíklegt að þessar tilhneigingar hafi lifnað við, þegar
honum varð ljóst hversu óyfirstíganlegt bil var á milli veruleikans og hug-
sjónarinnar. Smákvæði hans mörg frá síðustu árum hans, sem eru með því
langbesta sem eftir hann liggur, túlka djúp vonbrigði, beiskju, sektarkennd og
uppgjöf. I þeim mætir manni allt annar Brecht en sá sem kenningar hans og
mörg leikritanna bera vitni um; maður sem finnur til sársauka og örvæntingar
og þráir hvíld frá tilgangslítilli baráttu. Kannski var það einmitt þessi hlið
Brechts sem speglaðist í sýningum hans og knúði hann til að hafna öllum
formúlum um list, líka þeim sem hann hafði búið til sjálfur. Lykilinn að
afrekum Brechts og leikflokks hans er því ekki að finna í kenningunum, hann
var hvergi nema í skapandi persónuleika Brechts sjálfs.
Það er því hæpið að leikhúshugmyndir Brechts, eins og hann setti þær fram í
ritum sínum, geti komið leikhúsfólki nútímans að notum í þess eigin starfi. Sú
mynd af áhorfandanum sem er forsenda þeirra stenst ekki fremur í þjóðfélagi
neyslu- og lífsgæðakapphlaups en því harðstjórnarríki sem Brecht kaus að starfa
í. Samt sem áður hafa á seinni árum myndast nokkurs konar söfnuðir leikhúss-
fólks víða um lönd sem hafa þessar kenningar fyrir æðstu trúarjátningu og
virðast ímynda sér að þær séu besta leiðin til að skapa list sem geti stuðlað að
þjóðfélagsbreytingum og jafnvel byltingu. Það er dálítið hlálegt að sjá þetta fólk
halda í kennisetningar sem Brecht varpaði sjálfur sannanlega fyrir róða, en það
er hins vegar ekki jafn skemmtilegt að koma í leikhúsið til þess. Sýningar þess
eru flestar jafn lífvana og þær sem hægt er að sjá á Berliner Ensemble nú, þó að
vinnubrögðin séu sjaldnast jafn fáguð og hjá listamönnum þess leikhúss. Eftir
standa aðeins nokkur ytri stílbrögð, sem Brecht rökstuddi fræðilega út frá
formúlu sinni en hafa þó upphaflega vart verið annað en persónuleg sérkenni
sýninga hans. Það sem gaf þeim gildi innan lifandi heildar verksins á sínum tíma
er löngu horfið og verður aldrei endurheimt.
Þó að leikhúskenningar Brechts geti því verið mjög varasamar skapandi
leikhúsfólki fer því fjarri að ekki megi margt af þeim læra. Fáir hafa haft jafn
ríkan skilning á því og Brecht að í leikhúsinu verða allir hinir ólíku þættir þess
að mynda samtengda og lífræna heild. Brecht áleit að hið borgaralega leikhús
samtímans væri gersamlega staðnað og hann var staðráðinn í að finna leið til
ríkari leikrænnar tjáningar. Og jafnt sem ungt og uppreisnargjarnt leikskáld og
gamalreyndur leikstjóri vissi hann að sú leið lá hvergi nema að hjarta þess sem á
horfir. „Leikhús sem hefur ekki samband við áhorfendurna er fáránlegt,“
skrifaði hann árið 1926 og löngu síðar talar hann um að leikhús framtíðarinnar
megi ekki aðeins byggjast á list leikarans heldur einnig list áhorfandans, eða því
403