Tímarit Máls og menningar - 01.09.1983, Blaðsíða 7
Adrepur
efnahagskerfið skiptir hér lykilmáli; kapítalískar afstæður þess hafa djúptæk
áhrif á öllum sviðum nútímaþjóðfélags. En mér sýnist hættuleg einföldun fólgin
í þeirri ályktun, að sérhver geiri samfélagsins tjái bara þessar afstæður. Samfé-
lagið einkennist í senn af einsleitni og ‘ósamtímaleika’ eins og marxistinn Ernst
Bloch orðaði það: Stofnanir þess frá fjölskyldu til skólakerfis og listasviðs eru
misgamlar, eiga sér misjafnan uppruna og tengjast markmiðum með ýmsum
hætti, sem sjaldnast er hægt að skýra með þessu lagskiptingarlíkani, yfir- og
undirbygging.
Tökum dæmi af svonefndu borgaralegu þingræði: Sumir marxistar halda því
fram, með vissum rétti, að staða hins einangraða kjósanda í þessu kerfi samsvari
stöðu hins einangraða verkamanns sem vinnuaflsseljanda á frjálsum markaði
kapítalsins — yfirbyggingin tjáir skipan efnahagsgrundvallarins. En sé málið
skoðað sögulega verður ljóst að hinn almenni atkvæðisréttur einsog við þekkj-
um hann nú, er öllu öðru fremur baráttu verkalýðs og kvenréttindahreyfinga
að þakka, semsé ávöxtur andkapítalískra fjöldahreyfinga og ekki endurspeglun
efnahagsgrundvallarins (sem breytir ekki því að eignarrétturinn á fram-
leiðslutækjunum reisir lýðræðinu skorður svo um munar).
Með því að benda á takmarkanir umrædds byggingarlíkans er ég ekki að
afneita grundvallaratriðum í kenningu Marx, einsog Gunnar orðar það. Þau
atriði eru í mínum huga fremur tengd greiningu hans á skipan framleiðslu og
dreifingar í kapítalísku hagkerfi og stöðu vörunnar í því, áherslu á hlutverk
stéttabaráttunnar í söguþróuninni og kenningum um firringu, ásamt heimspeki-
legri hugsun þar sem starfið (praxís) skipar öndvegi. I grein minni tók ég dæmi
af ýmsum marxistum sem láta sér ekki nægja að grípa til speglunar- og
byggingarlíkana, rétt einsog þau hefðu ennþá eitthvert upplýsingagildi í sjálfu
sér, heldur sýna á hluttækan eða áþreifanlegan hátt hvernig bókmenntir í senn
búa yfir sjálfstæðum þróunarmöguleikum og mótast af breytingum samfélags-
legra afstæðna, sem skoðaðar eru í ljósi marxískra fræða. Þetta eru greiningar
sem búa yfir því innsæi og krítíska afli, sem eru forsendur þess að marxísk
hugsun haldist lifandi. Það er svo mál Gunnars Karlssonar ef hann telur enga
ástæðu til að kenna slíka könnun á samspili inntaks, sögu og forms við
marxisma.
357