Tímarit Máls og menningar - 01.09.1983, Blaðsíða 37
Það er líka ýmislegt að gerast hér heima — þegar vel viðrar
lögum, reglugerðum og námskrám. Námsefni hefur einnig í mörgum
tilvikum tekið stakkaskiptum. Ef litið er eingöngu á reglur og lög fullyrði ég
hiklaust, án þess að hirða um að rökstyðja það frekar, að löggjöf um
grunnskóla og sú námskrá sem fyrir hann hefur verið sett, sé um margt til
fyrirmyndar, a. m. k. styður hvort tveggja við breytingar en hindrar þær
ekki. Þá fer ég heldur ekki í grafgötur með það álit mitt að það besta sem
samið hefur verið af námsefni fyrir grunnskóla á vegum skólarannsókna-
deildar menntamálaráðuneytisins á undanförnum árum standi fyllilega jafn-
fætis því sem fremst er meðal nágrannaþjóða. (Ég nefni sem dæmi nýtt efni í
stærðfræði og dönsku handa grunnskólum.)
Þá hefur aðbúnaður vafalítið batnað í mörgum skólum þó enn sé því víðs
fjarri að grunnskólar hér á landi standist samjöfnuð við skóla í ná-
grannalöndunum að þessu leyti, og ég hef komið í marga skóla sem eru
hryggilega vanbúnir. Sem dæmi um það má nefna eftirfarandi lýsingu á
bókakosti grunnskólanna:
Skuggalegt er því að horfa upp á það að af 168 skólum sem hér um
ræðir skuli 42 skólar hafa 0—2 bækur á hvern nemanda, 16 skólar 2—4
bækur og aðrir 16 4 — 6 bækur eða samtals hafa 74 skólar minna en 6
bækur á hvern nemanda.1
En þær breytingar sem orðið hafa eru að mínum dómi fyrst og fremst á
ytra borðinu. Það sem ekki virðist hafa breyst að ráði þegar á heildina er
litið er það sem oft er kallað hið innra skólastarf\ það sem gerist inni í
skólastofunni; viðfangsefnin, aðferðirnar, samskipti nemenda og kennara,
viðhorfin. Ég dreg enga dul á ótta minn um að skólastarf einkennist í
mörgum tilvikum af ófrjóu stagli, ólýðræðislegum samskiptum, óvirkni og
leiða. Mér er ljóst að hér er tekið all djúpt í árinni og kannski væri nær að
gleðjast yfir litlu. Því víst er að þegar skyggni er ágætt má greina nokkrar
hræringar þótt ekki fari þær enn hátt. Verið er að brydda upp á ýmiss konar
nýjungum, bæði hvað varðar námsefni, aðferðir og heildarskipan námsins.
A grunnskólastiginu hafa þessi nýmæli einkum stefnt að sveigjanlegu
skólastarfi og mun ég fara nokkrum orðum um það í þessari grein.
Hugmyndir um sveigjanlegt skólastarf ryðja sér til rúms
Þær hræringar sem greina má í allmörgum íslenskum skólum um þessar
rnundir eru oft kenndar við hugmyndir um sveigjanlegt skólastarf. Rétt er
að taka skýrt fram að þetta hugtak er býsna sleipt. Það virðist taka á sig
margar myndir þegar að framkvæmd kemur og til eru þeir sem telja það
gagnslaust í umræðu um skólamál. Vissulega hafa þeir nokkuð til síns máls
387