Tímarit Máls og menningar - 01.09.1983, Blaðsíða 9
Rannsóknir í bdskóla
eða skoðanir fá að koma fram, hversu fjarstæðar sem þær kunna að þykja, svo
fremi að menn leggi sig eftir að rannsaka gildi þeirra og færa fyrir þeim rök.
Þetta ytra og innra frelsi, ef ég má kalla það svo, hefur verið talin forsenda fyrir
starfsemi háskóla í vestrænum ríkjum, og ég tel að þessi hugmynd sé í reynd hið
eina sem tengir háskólamenn saman. Ef háskóli væri sviptur sjálfstæði sínu eða
frelsi í þeim skilningi sem ég hef nefnt bæri að leggja hann niður. Hann væri þá
einungis nafnið tómt.
Sem sagt í háskólum skal mönnum vera frjálst að rannsaka hvað svo sem þá
lystir, þeir skulu búa við algjört rannsóknarfrelsi. Þetta er boðorð eða lögmál
háskóla. Og það stendur óhaggað hvort sem mönnum er gert fjárhagslega kleift
eða ekki að leggja stund á þær rannsóknir sem hugur þeirra stendur til.
Boðorðið stendur óhaggað, segi ég, en í reynd er rannsóknarfrelsi manna í
háskólum skert á ýmsan hátt eftir því hvernig fjármagni og vinnuaðstöðu er
deilt meðal háskólamanna. Og þess vegna rís þessi spurning sem ég varpaði
fram: Hvers konar rannsóknum er háskóla brýnast að sinna? Hún rís upp vegna
þess að öfl bæði innan háskólans og utan taka ákvarðanir um það hvaða
rannsóknir eru stundaðar í háskólanum öðrum fremur. Spurningin sem ég bar
fram vekur því nýjar spurningar: Er sú stýring á rannsóknum í háskólanum sem
fram fer í reynd eðlileg og æskileg? Með öðrum orðum: Ber háskóla að sinna
vissum rannsóknum öðrum fremur og þá hverjum? Hvaða viðmiðanir höfum
við um gildi og mikilvægi rannsókna frá sjónarhóli háskóla?
Þó að rannsóknarfrelsi háskólamanna sé virt í orði — og þar með viðurkennt
fyrirfram gildi allra hugsanlegra rannsóknarverkefna — þá komumst við ekki
hjá því að takast á við þessar spurningar ef við viljum háskóli heita. Ef háskólinn
leiðir þessar spurningar hjá sér — eins og hann hefur raunar gert að mestu til
þessa — þá verða einfaldlega gefin svör við þeim annars staðar í kerfinu. Svo að
dæmi sé tekið þá er ekki krónu veitt á fjárlögum þessa árs — og hefur raunar
aldrei verið gert — til rannsóknarstofnunar í guðfræði. Þegar formaður fjárveit-
ingarnefndar Alþingis var beðinn um skýringu á þessu mun hann hafa svarað
hnyttilega: „Vegir Guðs eru órannsakanlegir". Það virðist augljóslega fráleitt að
veita fé til rannsókna á viðfangsefnum sem menn telja sig vita fyrirfram að ekki
sé unnt að rannsaka. Kristnir fræðimenn hafa þó um aldir lagt sig eftir að
rannsaka þær heimildir sem opinbera, að dómi kristinna manna, boðskap Guðs
til mannfólksins, og þann lærdóm, sem af þessum boðskap má draga, um
merkingu og tilgang lífsins og um manninn sjálfan, kosti hans og lesti. Eg dreg í
efa að nokkur önnur kenning hafi á eins áhrifamikinn hátt hvatt mennina til
frjórra ígrundana og rannsókna á mannlífinu og heiminum, sköpunarverkinu í
heild. En sem sagt, rannsóknum á þessu sviði telur fjárveitingavaldið með öllu
ástæðulaust að sinna, ef ekki ógjörlegt.
Við skulum láta þetta eina dæmi nægja um það hvernig staðið er að stýringu
fjárveitinga til rannsókna í háskólanum, þótt þar sé augljóslega víðar pottur
brotinn. Spurningin er hvort og þá hvernig megi hugsa sér einhverja skynsam-
359