Tímarit Máls og menningar - 01.09.1983, Blaðsíða 49
Krafa um afnám skóla — Abrar menntaleiðir
hugsun? Ég læt lesandann um að dæma — en held nú áfram með söguna í
þeirri von að einhver hafi áhuga á að rekja hana lengra.
Gagnrýni úr fleiri áttum
Paul Goodman og þeim félagsfræðingum, sem hófu hvassa skólagagnrýni í
tengslum við athuganir sínar á þróun þjóðfélagsins fyrir rúmum aldarfjórð-
ungi, bættist fljótlega liðsauki úr ýmsum áttum. Þar voru á ferðinni
sálfræðingar eins og Carl Rogers sem í anda mannúðarsálfræðinnar færði
rök fyrir því að nemendur ættu að fá meira frjálsræði en tíðkaðist í
hefðbundnu skólastarfi og leita þroska eftir eigin leiðum — og Jerome
Bruner sem beindi í upphafi hins merka ferils síns athyglinni að æskilegu
námsefni og betri kennsluaðferðum en tók afstöðu sína til endurskoðunar
og athugaði viðfangsefnið í víðara samhengi í Toward a Theory of Instruc-
tion frá 1966 og þó enn frekar í greinasafninu Relevance of Education frá
1971. Um það tímabil sem greinarnar spanna, þ. e. 1964 — 1970, segir Bruner
í formála bókarinnar: „I uppreisnar- og hugsjónaanda þessa tímabils má
greina kröfuna um hið „eðlilega“, hið „frjálslega“ og nám sem tengist vitund
einstaklingsins og beinni reynslu hans af viðfangsefninu. Vantrú á hefð-
bundnum leiðum hefur vakið spurningar um hvort skólar sem slíkir séu
ekki hluti af vandamáli — fremur en leið til að leysa vandamál menntun-
arinnar."
Flestir þeir höfundar leikir og lærðir sem á þessum árum geystust fram á
ritvöllinn í Bandaríkjunum og munduðu stílvopn sín gegn skólanum eru lítt
þekktir í Evrópu. Oðru máli gegnir um þá kennara sem slógust í hópinn:
Jonathan Kozol, Herbert Kohl og síðast en ekki síst John Holt. Framlag
Kozol til skólagagnrýninnar á þessum árum var miskunnarlaus greining á
því hvað gerist í skóla í fátækrahverfi. Hún birtist í verðlaunabók sem ber
hið dramatíska heiti Death at an Early Age (1967). Kohl skrifaði á árunum
1967—70 þrjú snörp og lífleg ádeilurit um stirðnað og vélrænt skólakerfi og
lagði sig jafnframt fram um að leiðbeina kennurum um hvernig hægt væri að
brjóta af sér klafa þess og breyta starfsháttum sínum skref fyrir skref. John
Holt verður að segja frá í lengra máli.
Gagnrýni byggð á kennarareynslu: John Holt
Fyrstu hugmyndir John Holt mótast af reynslu hans sem kennara, einkum
þrotlausum athugunum hans á því sem hann sér gerast í kennslustundum
sínum og annarra — athugunum á því hvernig börn læra innan skóla og
utan. Hann verður fljótlega mjög gagnrýninn á skóla og þá starfshætti sem
tíðkast í þeim. Formáli fyrstu bókarinnar sem hann samdi og byggði á
þessum athugunum, How Children Fail (1962), hefst með bitrum orðum:
399