Tímarit Máls og menningar - 01.09.1989, Side 24
Tímarit Máls og menningar
var innlend fremur en flestra helztu rithöfunda vorra á þessari öld, og
breytir þar engu um þó að Þórbergur teldi sig vera alþjóðahyggjumann.
Hann vílaði ekki fyrir sér að segja þjóð sinni til syndanna, þegar svo bar
undir, og hefur varla þótt nema von að þjóðin bæri sig að taka á móti.
Vafasamt er hvort umvandanirnar hafa hrinið á þjóðinni.
Nú stendur reyndar ekki til að ég fjalli hér um það hvernig Þórbergur
komst af við þjóðina, heldur fremur um það hvernig honum samdi við
sjálfan sig. En að vísu eru útistöður hans við þjóðina fróðlegar, og við-
kvæmni Þórbergs fyrir því hvað sagt var um hann er þáttur í skaphöfn
hans. „Hún giftist manni sem hlær að mér,“ segir hann um prestkonuna af
Seltjarnarnesi. A eftir öðru kvæði setur hann þessa athugasemd: „Þetta
kallar Vilmundur skemmtilega vitleysu“. Semsé: skemmtilegt kunni það að
vera, en vitlaust var það áreiðanlega. Nú held ég raunar að Þórbergur hafi
gert sér mikið far um að skemmta öðrum, en með sjálfum sér hafi hann
lengst af einkum verið að leita að vizku og fróðleik. En jafnvel vinur hans
Hallbjörn Halldórsson, þegar hann skrifaði afmælisgrein um Þórberg, vildi
helzt minnast skemmtunar hans, og sæmir hann heiðursnafnbótinni:
„Skemmtunarmaður þjóðarinnar“, enda væri skemmtun eiginlegt hlutverk
skálda, og hann hælir Þórbergi ekki sízt fyrir „kátlega hnykki hins knæfa
skemmtunarmanns". En ef til vill er álitamál hvort slík ummæli séu hól um
skáld.
Neikvæðu mati á hinum þjóðlega skemmtunarmanni geta annars þeir
sem vilja, kynnzt með því að lesa nítjánda kafla í Fegurb himinsins eftir
Halldór Laxness.
Eg held að það mat sem gerir Þórberg að „skrítnum karli“ eins og Sverrir
Kristjánsson kemst að orði, eða að „knæfum skemmtunarmanni", sem
Hallbjörn Halldórsson kallaði hann, beini lesendum ekki réttan veg að
Þórbergi, geri honum rangt til, þó að Þórbergi hafi að vísu sjálfum þótt
hentugt að grípa stundum til slíks gervis, svo sem í sjálfsvarnarskyni.
Þegar Þórbergur Þórðarson fer af skútunni haustið 1909, tuttugu og eins
árs ef marka má kirkjubækur, og sezt að í Reykjavík, byrjar erfiður kafli í
lífi hans og stendur í mörg ár. Um þetta tímabil ævi sinnar hefur Þórbergur
fjallað í nokkrum bókum, og heimildir um það hafa verið gefnar út eftir
dauða hans. Ymislegt ber fyrir hann á þessum árum, hann kynnist ungum
og skemmtilegum mönnum, sem sumir verða vinir hans ævilangt, hann fær
ást á stúlku, sem hann er of tilburðalaus og fátækur til að eignast, og hann
leitast við að afla sér menntunar.
Þó að líf Þórbergs væri enganveginn tilbreytingarlaust þessi ár, andar oft
furðu miklu vonleysi og dapurleika úr dagbókarskrifum hans, og þrátt fyr-
286