Tímarit Máls og menningar - 01.09.1989, Page 64
Gyrdir Elíasson
Rökkuróperan
Veturinn 1985-86 var ég búsettur á Borgarfirði eystra. Framan af vetri ríktu
frost og stillur og það var látið renna vatn á íþróttavöllinn og útbúið fyrir-
taks skautasvell. Eg bjó í tvílyftu gráu húsi utarlega í þorpinu, á efri hæð,
og eitt tunglskinsbjart kvöld gróf ég gömlu hokkýskautana mína upp úr
drasli í geymslunni og gekk með þá slengda yfir öxlina þangað sem svellið
glitraði. Þetta kvöld endurlifði ég þá stemningu sem Rökkurópera Þór-
bergs Þórðarsonar hafði vakið með mér þegar ég las hana fyrst, mörgum
árum áður, norður á Sauðárkróki. Þessi tunglskinsskautaljómi hefur leikið
um þá bók síðan, þegar ég minnist hennar, þó hún fjalli vissulega um fleira
en skautaferðir. Hún er þriðji hluti Suðursveitarbálksins, en samt sem áður
engin þreytumerki á sögumanni, þvert á móti; hann er fjörugri og uppá-
tektarsamari en nokkru sinni fyrr. Hann heldur áfram leiftrandi bernsku-
sögu sinni, sérvitringslegri og óvenjulegri. Endalaust sér hann það stóra í
hinu smáa, ekkert er of ómerkilegt til að beina að því sjónum, allir hlutir
lifandi, steinar tala sem fyrr; guðsgræn náttúran öll andar þungt og taktfast
einsog risavaxin skepna, hnerrar þegar minnst varir. A breiðu og hnúskóttu
baki hennar valhoppar vesalings ofvitinn niður að Lóni, með bátinn Albert
undir hendinni. Það gildir einu hvort Breiðabólsstaðarlónið er ísilagt undir
mána, glampandi slétt í geislum sumarsólar, eða úfið og gruggugt að haust-
lagi, ævinlega stafar það lífi. Reyndar lúrir ógnin undir ísnum vetrarlangt
og gerir lífið spennandi; skautarákir ímyndaðar sprungur. Og ekki eru allir
jafn lánsamir. Sumir lenda niður um vakir og sveima upp frá því yfir sönd-
unum huldir augum lifenda. En í augum Þórbergs eru líf og dauði ekki eins
ósættanleg og hundur og köttur. Hann eygir hvarvetna samræmi, eitt snýst
á sveif með öðru, í hans veröld er ekki hver höndin upp á móti annarri,
kynjaverurnar Ljós og Myrkur stíga hringdans í sátt - og vanga jafnvel í
lokin.
Mér er til efs að annars staðar á Islandi hafi verið slíkt kjörlendi fyrir
uppölslu ofvita og Suðursveit var á þessu méli, kringum aldamótin. Gerðis-
akademían í blóma: Oddný, og Oddnýjarsynir. Og þyngst vegur á reizl-
unni mar^slungið náttúrufar þessa landsvæðis: kortlagt er það einsog loft-
mynd af Imyndunaraflinu með stórum staf. Svona landslag fær mann til að
hugsa, og það fyrr en seinna. Ur því er stutt í yfirsnúninginn . . .
326