Tímarit Máls og menningar - 01.03.1990, Page 66
ævinlega betur, gat sagt henni hvað var rétt og hvað rangt. Þannig hafi hann
eitthvert vald á hugsunum hennar.
Þau bjuggu afskekkt. Hún hjólaði þessa kílómetra fram og til baka í búðina.
Hann var alltaf á bílnum. Skrítið, eins og hann vildi ekki að hún æki.
Nú beit einn á, skyldi hann missa hann? Nei, guði sé lof. Þessi var nokkuð
stór og hún brosti aftur. Það væri nú gaman að fá að reyna.
Halla tók af degi. Brátt tæki hann stefnu á land og þessi dagur væri senn á
enda. Birtan varð gulleitari og trjástofnarnir urðu hvítir þar sem sólin náði að
skína. Fjöllin fengu á sig töfrabirtu, brátt yrðu þau fölbleik og síðan purpura-
rauð. Þessi litbrigði stóðu sjaldan lengi og hún reyndi að njóta þeirra í hvert
sinn. Golan varð kaldari og vatnið gáraðist og hana langaði að strjúka yfir það
og slétta með lófanum.
Hún gleymdi aldrei þegar hún hafði dottið í vatnið. Margsinnis hafði hann
sagt henni að halda fast um greinina eða trjábolinn, sem hún batt bátinn við,
en í þetta sinn hafði greinin óvænt brotnað þegar hún hélt sem fastast og
báturinn sigldi áfram og hún féll í kalt vatnið. Einhvern veginn tókst honum
að drösla henni um borð og hafði meira að segja farið fyrr heim, eftir að hafa
látið þau orð falla, að hún ætti auðvitað að sleppa takinu ef eitthvað færi
úrskeiðis og skárra væri að sigla aftur að trénu en ná henni upp úr vatninu,
þung eins og hún væri í allri þessari fatahrúgu.
Ekkert fararsnið var á honum. Nú beitti hann enn og aftur. Henni bauð við
grárri beitunni. Þetta voru gráleit krabbadýr, lifandi. Hann hélt þeim á lífi
dögum saman í sérstöku keri bak við hús. Hana hryllti við. Verst var þó þegar
hann hafði náð nokkrum stórum og vildi hafa þau í matinn. Sem betur fór át
hann þau flest sjálfur. Þá fékk hún sér aukakaffibolla. Það rumdi þá í honum
en hún vissi að það var óhætt. Annars var erfitt að reikna hann út. Eitt sinn
höfðu þau farið í kaupstaðinn og eftir að hann hafði gert góð kaup fór hann
með hana inn á veitingahús og spurði hvað hún vildi um leið og hann fletti
matseðlinum. Sjálf þorði hún ekki að fletta matseðlinum. Henni leið illa þama
inni og borðaði eitthvað ódýrt, eitthvað sem hún hélt að honum líkaði að hún
hefði pantað og var allt annað en það sem hana hafði langað í og hún hefði
pantað, hefði hún verið róleg og haft nægan tíma.
Hún kunni ekki að stýra bátnum, en í því tilviki að hann vildi láta hana taka
64
TMM 1990:1