Tímarit Máls og menningar - 01.12.1991, Blaðsíða 31
frá Evrópu. Þau urðu örlög Noels Fields að
hann varð að flýja land þegar Joe McCarthy
hóf nomaveiðar sínar gegn vinstri sinnum í
Ameríku. Hann taldi sig eiga víst hæli í
Austur-Evrópu en var handtekinn skömmu
eftir að hann kom þangað, sakaður um að
vera lykilmaðurinn í samsæri sem heims-
auðvaldið hefði skipulagt gegn sósíalism-
anum. Þetta var laust upp úr 1950 og nú
hófust miklar hreinsanir í Austur-Evrópu
sem leiddu meðal annars til hinna skelfi-
legu réttarhalda yfir Rudolf Slansky í
Tékkóslóvakíu og Laszlo Rajk í Ungverja-
landi. í Austur-Þýskalandi var fjöldi fólks
handtekinn og ásakaður um að hafa þekkt
Noel Field og vera á mála hjá auðvaldinu.
Næsta hrina hófst á haustmánuðum 1956.
Þetta sama ár hafði Níkíta Krútsjov haldið
fræga ræðu á 20. flokksþingi rússneska
kommúnistaflokksins og gerð hafði verið
bylting í Ungverjalandi. Walter Ulbricht,
aðalritari austur-þýska kommúnistaflokks-
ins óttaðist að þessir atburðir kynnu að
draga dilk á eftir sér. Hann vissi sem var að
á meðal austur-þýskra menntamanna voru
uppi háværar raddir sem kröfðust lýðræð-
islegra umbóta og því lét hann handtaka
fjölmarga ritstjóra, blaðamenn, stúdenta,
prófessora og bókaforlagsmenn til að vara
þessar starfsstéttir við í eitt skipti fyrir öll.
Tveimur dögum eftir að Rauði herinn
réðst inn í Ungverjaland hringdi Anna Seg-
hers í Janka og sagðist eiga við hann áríð-
andi erindi sem ekki væri hægt að ræða í
síma. Þau hittust daginn eftir á veitingastað
í Austur-Berlín og skáldkonan segir honum
óðamála að líf Georgs Lukács sé í hættu.
Hún og Johannes R. Becher séu sannfærð
um að verkamenn í Ungverjalandi ætli að
hengja Lukács án dóms og laga þar sem
hann hafi verið ráðherra í uppreisnarstjóm
Walter Janka og Georg Lukács í Berlín.
Imre Nagys. Síðan spyr hún Janka hvort
hann sé reiðubúinn að fara til Ungverja-
lands og freista þess að bjarga Lukács yfir
til Austurríkis. Janka bendir henni á að það
muni taka sig margar vikur að fá vegabréfs-
áritun til Ungverjalands. Hún segir honum
þá að Johannes R. Becher muni sjá um þau
mál og hann þurfi engar áhyggjur að hafa.
Um kvöldið berast honuni þau boð frá Be-
cher að hann fái vegabréfsáritun, bíl og
bflstjóra og dollara eins og hann þurfi. Hann
eigi að leggja af stað í býtið í fyrramálið.
Morguninn eftir, þegar Janka er í þann veg-
inn að leggja af stað, hringir Becher í hann
og segir að Ulbricht hafi frétt af ráðabrugg-
inu og vilji ekki að hann fari.
Þetta átti eftir að hafa örlagaríkar afleið-
ingar fyrir Janka. Hann hafði tekið þátt í
umræðum um nauðsynina á virkara lýðræði
í Austur-Þýskalandi og höfuðákæran gegn
honum var sú að hann hefði ætlað að fara
til Ungverjalands til að ná í Georg Lukács
og gera hann að „andlegum leiðtoga gagn-
byltingarinnar í Þýska Alþýðulýðveldinu“.
TMM 1991:4
29