Tímarit Máls og menningar - 01.06.2000, Side 99
PS frá ritstjóra
Ágæti lesandi.
Þótt markmið menningartímarita eins og TMM sé í sjálfu sér ekki að vera
fjölmiðlaefhi, heldur þjóna áskrifendum, er óneitanlega mjög ánægjulegt ef
greinar sem hér birtast vekja athygli annarra fjölmiðla og þar með
þjóðarinnar allrar. Það var tilfellið með grein Halldórs Björns Runólfssonar
um hið svonefnda „málverkafalsanamál“ sem birtist í síðasta hefti, því hún
var tekin til umíjöllunar í öllum landsfjölmiðlum sem á annað borð fjalla um
menningarmál. Síðan heldur umræðan áfram hér eins og sést á ádrepu
Aðalsteins Ingólfssonar listfræðings, sem er fróðlegt innlegg í umræðuna
um þetta viðkvæma mál.
Aðalefni þessa heftis, Dyggðirnar sjö að fornu og nýju, ætti ekki síður að
vera forvitnilegt, en það er framlag TMM til kristnitökuhátíðarinnar. Fjórir
valinkunnir fr æðimenn voru fengnir til að velta fyrir sér fyrirbærinu dyggð og
afstöðu fólks til þess víða um heim og á ýmsum tímum, allt ffá menningu
Forn-Grikkja til samtímamenningar okkar íslendinga, auk þess sem dyggð-
irnar sjö eru skoðaðar í ljósi nokkurs konar bókmenntaúrvals ffá fornöld til
okkar tíma. Og svona til að minna á að kristnin er eitt þeirra tryggðabanda sem
tengja okkur við umheiminn birtum við á forsíðunni mynd effir litháískan
listamann sem býr og starfar hér á landi, Vitautas Narbutas.
Þetta þemahefti er unnið í tilefni af kristnitökuhátíð sem haldin verður á
Þingvöllum nú í sumar og í samstarfi við Gallup, Kristnihátíðarnefnd og
ART.IS. En það tengist einnig tveimur myndlistarsýningum þar sem íjórtán
íslenskir myndlistarmenn sýna verk sem tengjast þeim dyggðum sem
íslendingar meta hvað mest nú á tímum. Þær verða opnaðar þann 30. júní á
Listasafhinu á Akureyri og 1. júlí n.k. í Stekkargj á á Þingvöllum og standa yfir
í tvo mánuði. Sýningarstjóra beggja sýninganna, Hannesi Sigurðssyni, færi
ég bestu þakkir fyrir samstarfið.
Hér er því verið að pæla í því gildismati sem íslendingar hafa haff að
leiðarljósi í gegnum tíðina og minna á að kristnin hefur lengi verið og er enn
gildur þáttur í menningu okkar. Það er staðreynd sem er hollt fyrir alla
íslendinga, jafht trúaða sem trúlausa, að staldra við og íhuga á þessum
tímamótum.
Með sumarkveðju,
Friðrik Rafnsson .
TMM 2000:2
www.malogmenning.is
97