Gripla - 20.12.2010, Page 172
GRIPLA172
Nokkrar sjálfstæðar útgáfur hafa verið gerðar af Víga-Glúms sögu allt frá
árinu 1756 að hún var prentuð á Hólum í Ágætum fornmannasögum, en tvær
útgáfur mega þó teljast bera langt af, fræðileg útgáfa Gabriel Turville-Petre
í ritröðinni Oxford English Monographs (hér skammstafað OEM) árið 1940
og útgáfa Jónasar Kristjánssonar í Íslenzkum fornritum, níunda bindi, árið
1956. Verður hér á eftir að mestu fylgt þessum útgáfum, en um texta vísn-
anna þó jafnan höfð hliðsjón af Skjaldedigtning AI og handritum, einkum
Möðruvallabók (M) þar sem ástæða virðist til. Þá verður og þegar þarf vísað
til eldri útgáfna sögunnar. Um samræmingu stafsetningar fer ég að jafnaði
nær Turville-Petre en Fornritafélagsstafsetningu.
Saga og vísur
Glúma býður upp á óvenjuleg textavandamál í lausa málinu og rannsak-
endur hennar hafa mjög beint athygli sinni að því efni. Hefur þar reynst
drjúgt til ágreinings og umfjöllunar samband sögunnar við Reykdæla sögu
eða þann þátt hennar sem fjallar um Víga-Skútu. Vísur Glúms hafa hins
vegar að sumu leyti fallið í skugga eða ekki þótt mikillar prentsvertu virði.
Báðir taka þeir að vísu fram, Turville-Petre og Jónas Kristjánsson, að sumt
sé torskýrt í vísunum. Hinn fyrrnefndi gengur svo langt að segja: „The
strophes in the text have offered grave difficulty. Undoubtedly they are
often corrupt, and are now to a large extent incomprehensible“ (OEM
1940, lv). Jónas Kristjánsson kvað gætilegar (og óljósar) að orði er hann
sagði um sína túlkun vísnanna: „Í þessari útgáfu eru vísurnar yfirleitt
skýrðar vafningalaust, með nokkrum leiðréttingum, en það verður að játa,
að ekki er allt svo ótvírætt sem ætla mætti eftir þeim skýringum. En það
hefði orðið of langt mál að reifa hvarvetna öll vafaatriði“ (ÍF 9 1956, xxiii, 1.
nmgr.).
Í þessari grein verður eftir föngum fylgt þeirri stefnu sem segir að hvert
handrit eigi skilið fulla virðingu og texti þess skuli skýrður án svonefndra
„leiðréttinga“ eða „lagfæringa“ og einn texti verði tæplega leiðréttur með
öðrum. Nægir þar í raun að minna á orð Jóns Helgasonar þar að lútandi í
inngangi að Tveim kviðum fornum.4 Allar leiðréttingar okkar á vísnatextum
4 „Þeir einir [textar] mega kallast „rangir“ sem vísvitandi voru leiðréttir af mönnum sem voru
að basla við að fá vit í það sem bjagað var eða þeir skildu ekki“ (1962, 15).