Gripla - 20.12.2010, Síða 173
173VÍSUR OG DÍSIR VÍGA-GLÚMS
í handritum þrettándu eða fjórtándu aldar sem beinast að því að láta vísur
eða kvæði líta tíundu-aldarlega út, eru fyrirfram dæmdar, enda hljóta menn
þá að gefa sér:
1. að allar vísur hafi verið rétt og mestanpart óaðfinnanlega kveðnar fyrir
öndverðu.
2. að þær bragreglur sem Snorri Sturluson lýsti á þrettándu öld að hafa
skyldi í heiðri og hann taldi hafa ráðið í fornum kveðskap, eru látnar gilda
sem náttúrulögmál.5
3. að skilningur okkar, sem nú lifum, á máli tíundu eða elleftu aldar sé
betri og réttari (kannski einkum „vísindalegri“) en skilningur þrettándu og
fjórtándu aldar skrifara.
Við þetta bætist svo að alloft ræður smekkur leiðréttandans mestu um
breytingarnar. Mætti þar um oft hafa þau orð sem Finni Jónssyni voru töm
um skrifara Uppsala-Eddu að breytingar hans sýndu „ren tilfældighed eller
skrivervilkårlighed“ (1931, xix) ellegar hreinlega „fuldkommen vilkårlighed“
(1931, xxii).
Þegar grannt er að gáð er Möðruvallabókartexti vísna Víga-Glúms e. t.
v. ekki svo torráðinn eða brenglaður (corrupt) sem Turville-Petre lét. Má til
marks um það benda á hve fáar lagfæringar textans hafa talist nauðsynlegar
að mati fræðimanna, eins og fram kemur hér á eftir.
Auðvitað er alveg ljóst að stundum orkar tvímælis hvernig á að taka
vísuparta saman og þar með hvernig á að skýra. Kenningar Glúms eru
sumar hverjar torráðnar og reknar.6 Kann meira að segja oftar að hafa verið
tvírætt ort en okkur sé ljóst, sem ekki er gefin andleg spektin.
Hér verður vikið að öllum vísum Glúms en ekki alveg í þeirri röð sem
þær birtast okkur í sögunni. Fyrst fjalla ég lauslega um vísur sem í flestu
eru sígildar lausavísur (í sögunni nr. 1, 3, 7, 8, 9 og 11), annað hvort fast-
tengdar einum viðburði eða þá nokkuð almennar vangaveltur. Síðan verður
5 Of sjaldan er á það minnt að dæmi Snorra Sturlusonar í Eddu um forna hrynjandi, þ. m. t.
hljóðlengd og rím, eru úr hans eigin kveðskap. Dæmin sem hann tekur af fornum vísum í
Skáldskaparmálum snúa að kenningum og heitum, ekki metrík.
6 Bent skal á að samkvæmt túlkunum Bergsveins Birgissonar (2008, 155) er það sennilega
heldur fornlegt einkenni en hitt að kenningar séu reknar og jafnvel dálítið súrrealískar (sjá
umfjöllun hans um nykrað og finngálknað). Hugmyndir Snorra Sturlusonar (og vafalítið
mjög margra samtíðarmanna hans) eru „aristótelískar“ í þeim skilningi að hann hefur mjög
sterka tilhneigingu til að kerfisbinda og skapa samræmi og vænta þess ins sama af skáldum
og skáldskap. Sjá Bergsveinn Birgisson 2008, einkum 4. kafla, Estetikk, bls. 73–110 (að
stofni til er sá kafli endurunninn í grein höfundar 2009).