Gripla - 20.12.2010, Page 174
GRIPLA174
fjallað um þær vísur sem tvímælalaust eru sérkennilegastar og gefa innsýn,
að mér virðist, í athyglisverðan hugarheim skálds, sýn sem birtist annað
hvort í efni vísnanna eða sérkennilega myndhverfum kenningum.
Úr veraldarvafstrinu
Hvergi er í uppvaxtarsögu Glúms vikið að því einu orði að hann sé skáld-
mæltur. Það kemur því nánast á óvart þegar hann brestur út í kveðskap
nýkominn heim úr framaför sinni til útlanda. Hann fer, að áeggjan móður
sinnar, að huga að því hvernig nágrannarnir hafa gengið á land hans, eink-
um með því að færa landamæragarð og leggja undir sig akurinn góða,
Vitaðsgjafa7 „ok þá kvað hann vísu“:
Nærr gengr mér ok mínum,
mendǫll, hjúum ǫllum
þverr við glaum, inn grœni
garðr, en oss of varði.
Verðr hróðr skotat harðla,
hér tíni ek þat, mínum,
munat enn, of styr stála
starflauss, fǫður arfi.8
(Skj. AI, 118; sbr. OEM 1940, 11; ÍF 9 1956, 20; M 1987, 132r a19).
Þessi vísa er dálítið sérstæð að því leyti að hún flytur beinan merkingarauka
við lausa málið.
Færsla garðsins er að sönnu nefnd, „Inn grœni garðr gengr nær mér ok
mínum hjúum ǫllum en oss of varði,“ en síðan birtir skáldið hug sinn og
7 Um Vitaðsgjafa sjá Anne Holtsmark 1933, Jónas Kristjánsson 1956, 22, sbr. Folke Ström
1954, 21–22. Margt er á huldu um fornan átrúnað landsmanna, bæði Freysdýrkun og tignun
annarra goða. Síðar í sögunni (19. kap.) koma fram merkileg ákvæði um friðhelgina kringum
Freyshofið að Uppsölum í Eyjafirði.
8 Kalla má eðlilegt að lagfæra mendǫll í menþöll í 2. vo. enda gera skýrendur það jafnan. dǫll
er allsendis óþekktur stofn í kenningu, en þǫll er sígilt. Handrit hefur menðaull og má vel
vera að skrifari á fjórtándu öld telji mendöll fullgilda kvenkenningu. Þess er og að geta að
Mardǫll er eitt af nöfnum Freyju og þarf þá lítið ímyndunarafl á fjórtándu öld til að skapa
kenninguna mendǫll.– Annarra leiðréttinga er ekki þörf. Jónas Kristjánsson bendir þó á að
líklega sé munat í 7. vo. villa fyrir munkat, því ella vantar frumlag í setninguna.