Gripla - 20.12.2010, Page 179
179VÍSUR OG DÍSIR VÍGA-GLÚMS
í öðrum kenningum, eins og hér verður rakið – að gera ráð fyrir að síðasta
orustukenningin sé Gǫndlar flaumr og síðan fylgi hermannakenningin
Gefnar seggir. En þá verður að hafa í huga þær kvenmyndir sem virðast
blasa við í öðrum vísum Víga-Glúms og minnast þess að hann sýnist ekki
gera stóran mun á gyðjum, valkyrjum og dísum. Verður nú að því hugað
um sinn.
Draumsýnir skáldsins
Þrjár vísur Víga-Glúms væru réttnefndar vísur um draum því þar segir
skáldið frá draumum sínum. Þessar vísur eru stórmerkar fyrir ýmissa hluta
sakir og verða skoðaðar hér í þeirri röð sem þær birtast í sögunni.
Í uppvaxtarsögu Glúms, kolbítssögninni, verður þess hvergi vart að
hann búi yfir spásögn af nokkru tagi fremur en skáldgáfunni. Hann rís úr
öskustónni þar sem hann er á vist með Vigfúsi afa sínum í Noregi, fer vel
fjáður heim og sest að búi á Þverá í Eyjafirði. Hann eignast að vísu fljótlega
óvildarmenn og er greinilegt að Þorkell, granni hans, verður honum þung-
ur í skauti, þó nokkuð vel horfi fyrst í stað. Níundi kafli sögunnar segir svo
frá:10
Þat er sagt, at Glúm dreymdi eina nótt: hann þóttisk vera úti staddr
á bœ sínum ok sjá út til fjarðarins. Hann þóttisk sjá konu eina
ganga útan eptir heraðinu, ok stefndi þangat til Þverár; en hon var
svá mikil, at axlirnar tóku út fjǫllin tveggja vegna. En hann þóttisk
ganga ór garði á mót henni ok bauð henni til sín; ok síðan vaknaði
hann. Ǫllum þótti undarligt, en hann segir svá: „Draumr er mikill
ok merkiligr, en svá mun ek hann ráða, at Vigfúss móðurfaðir minn
mun nú vera andaðr, ok mundi kona sjá hans hamingja vera, er
fjǫllum hæra gekk. Ok var hann um aðra menn fram um flesta hluti
at virðingu, ok hans hamingja mun leita sér þangat staðfestu, sem
ek em.“ En um sumarit, er skip kómu út, spurðisk andlát Vigfúss.
Þá kvað Glúmr vísu:
10 Hér sem ella fylgi ég samræmingu Turville-Petres, þar sem örlitlu minna er um fyrningar
og málfarsréttingar en hefð Íslenzkra fornrita segir fyrir um.