Gripla - 20.12.2010, Page 184
GRIPLA184
annan; en steinarnir kómu saman, ok varð af brestr hár. […] Ok er
ek vaknaða, kvað ek vísu:
Harðsteini lét húna
harðgerðr Limafjarðar,
þat sá, dóms, í draumi,
dyn-Njǫrðr mik [of]18 barðan.
En ek, þrádráttar, þóttumsk
þjósti keyrðr of ljósta
sævar Hrafns í svefni
snarr beinanda, steini.
(OEM 1940, 35–36; sbr. ÍF 9 1956, 69–71; M 1987, 137v b28).
Hér er ýmislegt skrítið. Það er enginn hversdagsbardagi sem háður er með
steinbrýnum, heinum. Reyndar er aðeins einn bardagamaður sérlega kunn-
ur af því að berjast með hein,19 jötunninn Hrungnir (Faulkes 1998, 20
o. áfr.) er hann háði einvígi við Þór. Þar mættust að vísu ekki tvö brýni
heldur hamarinn Mjöllnir og heinin og lá við bræðrabyltu, því heinarbrot
fór í höfuð Þórs en hamarinn í haus Hrungnis. Athyglisvert er hins vegar
að Snorri segir að öll heinaberg séu til komin af hein Hrungnis, og þannig
verður hún formóðir heinanna sem þeir berjast með, Þórarinn og Glúmr.
Það er því afar freistandi að sjá í draumbardaga Glúms við fjandmanninn
Þórarin endurspeglun goðsögulegs bardaga. Er í því sambandi ástæða til að
benda á að óvinurinn er kallaður dyn-Njörðr og hlýtur þannig goðfræðileg-
an kenningarstofn, og ekki er lakara að það er einn þeirra vana sem giftir
voru jötnameyju! Öll er kenningin nokkuð harðsnúin (ef rétt er ráðið).
Turville-Petre túlkar: Harðgerðr Limafjarðar húna dóms dyn-Njǫrðr. Hann
fylgir E.A. Kock (Notationes Norrœnæ § 790) um það að Limafjarðar húnn
(bangsi) sé skip; þá verður dómr Limafjarðar húns = sjóorusta og dyn-
Njǫrðr hennar = hermaður. – Í seinni helmingi er þrádráttar steinn vænt-
anlega hið margdregna brýni og snarbeinandi sævar Hrafns er sæfarinn,
stýrimaðurinn (Hrafn er hestsheiti) og sjálfur segist Glúmur hafa verið
þjósti keyrðr, æfareiður.
18 Þetta fyllingarorð er viðbót Konráðs Gíslasonar og ekki í handritinu. Sé horft til texta
Möðruvallabókar er þó ljóst að skrifari hennar hefur vel getað hugsað sér þetta vísuorð gott
og gilt án of. Hann las væntanlega dyn-Njörður mik barðan.
19 Úr goðsögum höfum við að sjálfsögðu líka heinina sem Óðinn æsti þræla Bauga til að berjast
um, þegar hann var að leita skáldamjaðarins.