Gripla - 20.12.2010, Page 191
191VÍSUR OG DÍSIR VÍGA-GLÚMS
Að lokum
Glúmur Eyjólfsson er af síðustu kynslóð heiðinna skálda. Vísur hans eru,
eins og áður er nefnt, yfirleitt ekki rengdar eða taldar rangfeðraðar. Til þess
skortir öll rök. Sumar þeirra, einkum draumvísurnar, eru með skýringa-
köflum öldungis óþarfar fyrir framvindu sögunnar og eru til þess full rök
að skoða þær sem kennslubókadæmi um vísur sem ekki hafa lifað án skýr-
ingarkafla. Stíll Glúms, reknar kenningar og talsvert stórbrotnar, er fremur
til marks um háan aldur vísna en hitt.
Því eru meira en meðalfróðlegar þær myndir sem Glúmur dregur upp
fyrir okkur af goðfræðilegum kvenverum. Hann sýnir okkur hamingju sem
er tröllvaxin. Hann bregður upp mynd af goðreið og gyðjum sem ausa blóði
yfir líf manna. Hann dreymir sjálfan sig í mýtiskum bardaga með brýni –
og hann sér í síðasta bardaga sínum ekki venjulegar valkyrjur heldur dynfús-
ar dísir, stríðsglaðar, því dynr er í máli Glúms ekki bara orustugnýrinn
heldur orustan sjálf, sbr. kenningu hans dyn-Njörðr um hermanninn.
Það er brýnt að trúarbragðafræðingar taki vísur Glúms með í safnið
þegar þeir túlka kvenlegginn í norrænni goðafræði.23 Mynd Snorra Sturlu-
sonar í Eddu og þeirra sem síðan hafa einkanlega byggt á henni er sam-
kvæmt því sem hér hefur verið dregið saman of siðfáguð og einföld. Glúm-
ur gerir lítinn greinarmun á konum í hinum ólíku hlutverkum, kallar þær
dísir, ásynjur, eða hefur á þeim heiti valkyrja. Blóði rignir kringum þær og
fyrir þeirra tilverknað, þær eru bardagafúsar eins og hinar vöskustu skjald-
meyjar, en heiti þær liðsinni verða þær hamingjudísir. Myndirnar af vefj-
arkonunum sem Darraður lýsti í Njálu eru kannski ekki svo einstæðar?
Uppsölum 2009–2010
23 Mér varð mikil hvatning til ritunar þessarar greinar að ræða þessi mál við trúarbragðafræð-
inginn dr. Olof Sundqvist, þótt engin tilraun skuli gerð til að kenna honum um hugmyndir
mínar. Sérstakar þakkir fær líka samverkafólk mitt hér í Uppsölum, Henrik Williams,
Daniel Sävborg, Lasse Mårtensson og Maja Bäckvall fyrir margvíslegar og örvandi sam-
ræður um eddumál. – Ónafngreindum lesurum Griplu þakka ég ábendingar.