Gripla - 20.12.2010, Side 236
GRIPLA236
um ýmis lönd Evrópu til Frakklands, nema sjóleiðin væri valin, og þaðan til
Spánar og enduðu allar, ef svo má að orði komast, hjá helgiskríni postulans
í Dómkirkju Santiago de Compostela.
Veglegasta handritið sem til er af Liber sancti Jacobi,3 og nefnt er Codex
Calixtinus, er varðveitt í skjalasafni þeirrar dómkirkju. Handrit þetta er
ekki hið „upprunalega“ handrit, en er álitið það elsta sem til er af þessu
verki.4 Telst það eitt af þjóðargersemum Spánar. Þrátt fyrir þá staðreynd
hefur þetta handrit aðeins einu sinni verið prentað í heild og auk þess hefur
verið mun meira fjallað um það í trúarlegu tilliti en bókmenntalegu. Hins
vegar hafa einnig verið gefnir út hlutar af handritinu, aðallega Fjórða bók
þess.
Hér á eftir verður fjallað lítillega um Codex Calixtinus til kynningar á
því riti og er það notað til samanburðar við nokkrar þeirra frásagna sem
varðveittar eru í íslenskum handritum um postulann Jakob. Miðað er við
Jakobs sögu postula í tveimur gerðum (AM 645 4to og AM 630 4to) og
Tveggja postula sögu Jóns og Jakobs. Þessar þrjár frásagnir er að finna í útgáfu
Ungers.5 Síðastnefnda sagan er í Skarðsbók6, en það er með íslenskar þjóð-
argersemar eins og spænskar, ekki hefur verið lögð sú rækt sem skyldi við
að gefa þær út.
Codex Calixtinus og postulasögur Skarðsbókar eiga það sameiginlegt að
vera safnrit. Munurinn er hins vegar sá að Codex Calixtinus hefur að geyma
efni um aðeins einn postula, en í Skarðsbók segir frá mörgum. Mér sýnist
3 Liber Sancti Jacobi, „Codex Calixtinus“ I. Texto. Walter Muir Whitehill afritaði og gaf út
í Santiago de Compostela, 1944. Þetta er eina prentaða útgáfan sem til er af ritinu í heild.
Einnig hefur verið stuðst við eftirtalið rit, vegna þess hve erfitt reyndist að fá lánað eintak
af útgáfu Whitehills: Texto del manuscrito del Codex Calixtinus conservado en la Catedral
comopstelana. Liber Sancti Jacobi, „Codex Calixtinus“. Traducción por los profesores A.
Moralejo, C. Torres og J. Feo (Santiago de Compostela: 1951; reedición preparada por X.
Carro Otero, Xunta de Galicia, 1992).
4 Ég mun fylgja þeirri hefð sem skapast hefur að vísa til verksins í almennu tilliti sem Liber
Sancti Jacobi, en mun hins vegar kalla handritið sem varðveitt er í borginni Santiago de
Compostela, Codex Calixtinus.
5 Postola sögur, udgivne af C.R. Unger. Udgiven som Universitetsprogram for Andet
Semester 1873 (Christiania: 1874). Jakobs saga postola (bls. 513–535). Tveggia postola saga
Jons ok Jakobs (bls. 536–711).
6 Sjá Postola sögur. Útgáfa Ungers á Tveggia postola saga Jons ok Jakobs byggist á afriti af
Skarðsbók sem Árni Magnússon lét gera, eins og kemur fram í formála Ungers, bls. II.
Eyjólfur Björnsson gerði það afrit eins og Ólafur Halldórsson bendir á í útgáfu sinni á Sögur
úr Skarðsbók (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1967), 20.