Gripla - 20.12.2010, Page 238
GRIPLA238
ferðirnar.8 Einnig litu dagsins ljós rit eða jafnvel bækur sem sögðu frá þeim
kraftaverkum er gerðust í skjóli postulans og með því einu að heita á hann
eða biðja til hans.
Svo virðist sem í lok 11. aldar hafi tvær helgisagnir runnið saman,
helgisagnir sem áður höfðu verið aðskildar. Önnur sagði frá atburðum í lífi
postulans Jakobs, trúboðsferð hans til Spánar og dauða hans, hin frá flutn-
ingi líks hans til Santiago de Compostela og greftrun þess þar.9 En ekki
fóru allir til Spánar í því augnamiði einu að heimsækja gröf postulans og
öðlast fyrirgefningu syndanna, heldur einnig til að berjast við múhameðs-
trúarmenn sunnar í landinu. Að deyja í baráttu við þá jafngilti píslarvætti. Í
samræmi við það verður hinn friðsæli postuli herskár og eggjar hann
Karlamagnús keisara í draumi, samkvæmt frásögu Liber Sancti Jacobi, til að
fara með her til Spánar og hreinsa landið af múhameðstrúarmönnum.10
Þjóðsagan um Karlamagnús sem Matamoros (Márabana) verður einmitt til
á miðöldum, en jafningjar hans tólf deyja nokkurs konar píslarvættisdauða
í Rúnzival (á latínu Runcieuallis, á fornfrönsku Rencesvals), eftir því sem
hermt er í franska kappakvæðinu La Chanson de Roland og í norrænu þýð-
ingunni á því kvæði, Sögunni af Rúnzivals bardaga. Dáðir Karlamagnúsar
og kappa hans suður á Spáni, samkvæmt þessum frásögnum, eru ekki
nema að litlu leyti í samræmi við sagnfræðilegar heimildir. Vissulega réðst
Karlamagnús inn í Spán árið 778 og settist um borgina Zaragoza, en því fór
fjarri að ætlunin hafi verið að vinna einhvern stórsigur á Márum. Þvert á
móti blandaði hann sér í pólitískar deilur þeirra á milli. Skálduð framganga
Karlamagnúsar á Spáni tengist engu að síður helgisögninni af Jakobi post-
ula.
Handritið Codex Calixtinus er álitið hafa orðið til á 12. öld,11 líklega á seinni
helming aldarinnar.12 Í ritinu er getið um „höfunda“ verksins, en öruggt er
8 Díaz y Díaz, Manuel C. El Códice Calixtino de la Catedral de Santiago (Santiago de
Compostela: 1988), 21–23.
9 Sama rit, 29.
10 Codex Calixtinus, 303. Sjá einnig Karlamagnús sögu ok kappa hans. Udgivet af C.R. Unger.
Program til I. Semester 1859 (Christiania: 1860), 265. Einnig Tveggia postola sögu Jons ok
Jakobs, 668. Hér eftir verður sú saga skammstöfuð TPSJ+J.
11 Sjá formálann að spænsku þýðingunni á Codex Calixtinus, bls. xiii. Sjá einnig Díaz y Díaz,
El Códice, 33.
12 Díaz y Díaz, El Códice, 77. Tekið skal fram að þótt ég taki mið af þessu handriti sem varð-
veitt er á Spáni tel ég hæpið að frásagnir af postulanum Jakobi hafi beinlínis borist þaðan