Gripla - 20.12.2010, Page 244
GRIPLA244
hann safnaði efni í það, minnist hann ekki sérstaklega á Spán í því sam-
bandi, né nokkurt annað land. Hinni listrænu blekkingu um höfundinn
Calixtus II, og aðra þykjustusögumenn sem stíga fram í verkinu, er haldið
til streitu allt til loka þess. Og Calixtus er páfi allra kaþólskra manna og
hafinn yfir þjóðerni líkt og postulinn Jakob. Páfinn tekur sérstaklega fram
í innganginum, að hann byggi verk sitt á annarra manna frásögnum, á
alvörubókum eða því sem hann sjálfur hafi upplifað. Lesandanum eða
hlustandanum er ætlað að trúa að Calixtus II hafi sett þetta rit saman, og
trúi hann því, veitir ritið honum þá andlegu næringu og uppörvun sem
hann sækist eftir.
II. Jakobs saga postola
og Tveggia postola saga Jons ok Jakobs
Philip Roughton hefur bent á að flestir textanna í handritunum AM 645
4to og AM 630 4to, sem hafa að geyma meðal annars sögur af postulanum
Jakobi, séu þýðingar á ævisögum postula sem finna má í „the so-called
Historia Apostolica (Apostolic History) of Pseudo-Abdias“20 (8–9), lat-
nesku riti frá sjöttu eða sjöundu öld.
Til er á norrænu allnákvæm þýðing21 á Passio sancti Iacobi Apostoli filii
Zebedei, en þá frásögu er að finna í bók Pseudo-Abdiasar.22 Í útgáfu Ungers
ber þýðingin heitið Tillæg –Passio sancti Jacobi apostoli (Unger, 524–529) og
er varðveitt í handriti frá 13. öld, áðurnefndu AM 645 4to sem talið er elsta
handritið af postulasögum er hefur varðveist. Í umfjöllun minni hér á eftir
og til einföldunar mun ég kalla þá gerð sögunnar Jakobs sögu A. Sagan er
einnig varðveitt í pappírshandriti frá 17. öld, AM 630 4to sem fyrr var
nefnt (Unger, 513–521), og mun ég kalla þá gerð sögunnar Jakobs sögu B.
Það byggist á eldra handriti, AM 652 4to, sem er afar illa farið.23 Fleiri
20 Sjá Roughton, „Stylistics“, 8. Unger lætur hins sama getið í innganginum að útgáfu sinni á
Postola sögum (bls. I–II), en gerir því ekki frekari skil.
21 Eðlilega legg ég ekki nútímamerkingu í orðið þýðing, því að það væri út í hött að beita henni
á þýðingar frá miðöldum. Ég tel þýðingu vera nákvæma ef engar stórfelldar breytingar eru
gerðar á henni miðað við undirliggjandi texta á latínu, eins og að fella niður málsgreinar eða
bæta löngum málsgreinum við. Ég legg hins vegar minna upp úr einstökum orðum.
22 Boninus Mombritius, „Passio sancti Iacobi Apostoli filii Zebedei“, Sanctuarium seu Vitæ
Sanctorum II, Georg Olms stýrði útgáfu (New York: Verlag Hildesheim, 1978), 37–40.
23 Sjá Roughton, „Stylistics“, 7–8, einnig Þórður Ingi Guðjónsson, Frá Sýrlandi, 164.