Gripla - 20.12.2010, Side 246
GRIPLA246
en einnig er nokkrum línum eytt í að segja frá trúboði og dauða Jakobs.
Hið sama gerist í Codex Calixtinus, aðeins seinni hluti ræðu Honoriusar er
notaður, og sýnir það vissan skyldleika milli Codex-handritsins og
B-gerðarinnar. Norræna þýðingin á henni er allnákvæm, en þó má finna í
henni innskot sem verður síðar vikið að.
Í Jakobs sögu A, og í köflum 2 og 3 í Jakobs sögu B, segir frá viðureign
Jakobs við þá Ermogenis og Filetus, sem síðan gerast lærisveinar hans, en
einnig segir frá píslarvætti því sem postulinn mátti þola. Hvor frásaga um
sig, A og B, er aðeins nokkrar blaðsíður að lengd. Í 4. og síðasta kafla
Jakobs sögu B segir frá flutningnum (translatio) á líki Jakobs til Spánar og
samskiptum Ermogenis og Filetusar við konu þar, að nafni Lupa, sem er
ekkert lamb að leika við, en lætur sér að lokum segjast og breytir höll sinni
í kirkju og í henni hlýtur postulinn gröf.
Söguna af flutningnum á líki Jakobs er ekki að finna hjá Pseudo-Abdiasi
og ekki heldur í Jakobs sögu A, en hins vegar má lesa þá sögu, eins og í
B-gerðinni, í Codex Calixtinus, Þriðju bók verksins, kafla I (Codex, 290–
299). Fremst í kaflanum segir frá trúboði Jakobs á Spáni, en sú frásögn er
ekki til staðar í Jakobs sögu B, þó að þess sé getið í innganginum að sög-
unni að hann hafi stundað trúboð á Hispanialandi. B-gerðinni lýkur með
því að sagt er stuttlega frá lífshlaupi heilags Kristófers (Kristoforos), en
honum og Jakobi er helgaður sami dagurinn, 25. júlí. Er það í samræmi við
sermo Honoriusar d’Autun.
Frásögn Pseudo-Abdiasar af lífi Jakobs postula er einnig til staðar í
Codex Calixtinus, en mun framar í verkinu en frásögnin af líkflutningnum
eða í Fyrstu bók, kafla IX (Codex, 94–103). Píslarsaga Jakobs og flutning-
urinn á líki hans mynda því ekki eina frásagnarheild eins og gerist með
Jakobs sögu B. Auk þess er ekki eins sterk samsvörun milli Codex
Calixtinus og Pseudo-Abdiasar og er milli Pseudo-Abdiasar og norrænu
gerðarinnar. Munurinn er einkum sá að þegar kemur að því að segja frá
aftöku Jakobs, og jafnframt aftöku skrifarans úr röðum farísea, Josias, sem
snýst snögglega til kristinnar trúar fyrir tilstilli postulans, og deyr því með
honum, bólgnar texti Codex Calixtinus eins og á í vorleysingum og rennur
út í trúarlega mærð og skrúðmælgi. Virðist sem um sé að ræða tilraun til að
hefja frásögnina í „æðra veldi“. Eftir að Josias hefur gefið Jakobi friðarkoss,
biðja þeir saman fyrir aftökuna og er sú bæn býsna löng (Codex, 101–102).
Ekki er útilokað að á einhverju stigi hafi bæninni verið skotið inn í frásögu