Gripla - 20.12.2010, Page 248
GRIPLA248
kafla II í Þriðju bók, þegar búið er að að segja frá Lupa, sem er eins og
nafnið (vargynja) bendir til, af hinu illa. Á hinn bóginn er Jaffa ekki nefnd
á nafn hjá Honoriusi. Enn kemur fram viss skyldleiki milli Codex Calixtinus
og B-gerðarinnar. Í Jakobs sögu B sofna lærisveinar postulans, þeir
Er mogenis og Filetus, um leið og þeir stíga um borð í skip og vakna ekki
fyrr en þeir eru komnir til Spánar. Er sú frásögn í samræmi við sermo
Honoriusar. Samkvæmt Codex Calixtinus eru þeir sjö daga á leiðinni og
taka land í Hirie (Iria Flavia). Þess er ekki getið í Jakobs sögu B og ekki
heldur hjá Honoriusi, en kemur á hinn bóginn fram í Tveggja postula sögu
Jóns og Jakobs, svo að það atriði hefur verið þekkt í norrænum sögum um
postulann.
en toku hòfn um morgininn i vestanverðri Hyspania myklu i þeim
luta rikisins, er heitir Galicia, nærri þeirri borg, er þann tíma var
kollut Fornahistria [hin forna Hirria] (TPSJ+J, 589: neðanmáls, 8).
Samkvæmt frásögn Jakobs sögu B, í 4. kaflanum, tekur Lupa afar illa
málaleitan lærisveina Jakobs þess efnis að fá að taka honum gröf á landar-
eign hennar, enda lætur hún fjötra þá báða og varpa í myrkrastofu. Þeim er
bjargað af engli sem leiðir þá úr myrkrastofunni og leggja þeir á flótta og
koma að brú. Í Codex Calixtinus segir hins vegar að Lupa hafi sent þá
Ermogenis og Filetus til konungs nokkurs í Dugium, en hann ákveður að
láta sitja fyrir þeim á brú. Hvergi kemur fram að þeim hafi verið kastað í
myrkrastofu. Með guðs hjálp uppgötva þeir fyrirsátrið í tæka tíð og tekst
að flýja, en brúin brotnar undan fyrirsátursmönnunum þegar þeir ætla að
elta lærisveinana og farast þeir allir (Codex, 291–292). Hið sama gerist í
Jakobs sögu B (Unger, 519–520). Þeir sem elta lærisveinana farast á brúnni
þegar hún brotnar og verður konungurinn óttasleginn og tekur ásamt hirð
sinni kristna trú. Samkvæmt frásögu Codex Calixtinus ferst konungurinn á
brúnni. Í þessum efnum víkur frásaga Codex-handritsins frá Honoriusi, en
Honoriusi og B-gerðinni ber aftur á móti saman.
Lærisveinarnir snúa sér aftur til Lupa með beiðni sína um að fá að jarða
postulann á landareign hennar. Hún lætur sem hún gangist inn á það og í
Jakobs sögu B vísar hún þeim á öxn sem hún átti og skyldi þeim beitt fyrir
vagn til að aka líki postulans. Þeir eiga hins vegar, samkvæmt Codex
Calixtinus, að nota öxnin til að grafa gröfina, en þeir komast ekki strax þar
sem öxnin eru á beit, því að áður en það gerist ganga þeir fram á dreka sem