Gripla - 20.12.2010, Page 252
GRIPLA252
ingja í Jerúsalem sem koma því til leiðar að Jakob er tekinn höndum og
upphefst þá aftur þræta um efni trúarlegs eðlis þar sem Jakob fer með sigur
af hólmi. Sá sigur verður til þess að biskup Gyðinga, Abiathar, fyllist öfund
og fær háttsettan Gyðing til að taka Jakob fastan og fara með hann á fund
Heródesar sem dæmir hann til dauða. Skrifari farísea, Josias, sem leiðir
postulann til höggs, snýr frá villu trúar sinnar og gengur kristni á hönd. Er
hann deyddur með Jakobi eins og fyrr var getið. Þessa frásögn er að finna í
textunum fjórum, Pseudo-Abdiasi, Jakobs sögu A og B og Codex Calix-
t inus.
Í frásögn Pseudo-Abdiasar af Jakobi postula er auðvitað lögð megin-
áhersla á postulann sjálfan og á hæfileika hans og vald til að lækna krank-
leika af líkamlegum eða andlegum toga. Einnig kemur fram að hann hafi
þjónað trú sinni alveg fram í dauðann. Hins vegar kemur hvergi fram hvað
varð um lík hans.
En frá því atriði er greint í Jakobs sögu B, eins og áður getur, og svipar
frásögninni af líkferðinni til frásagnar Codex Calixtinus um sama efni, enda
byggjast báðar á sermo Honoriusar d’Autun. Sagan sú og af frúnni Lupa
verður til þess að áherslan færist örlítið frá yfirnáttúrlegum hæfileikum
postulans og píslarvætti hans yfir á legstað hans í Galicia-héraðinu á Spáni.
Sagan af líkferðinni og samskiptum lærisveina Jakobs við Lupa er seinni
tíma viðbót og má í því sambandi nefna að Honorius er talinn hafa verið
uppi um 1075 til 1156 (þó frásögnin í sermo hans um postulann Jakob sé
talin eldri). Því er engan veginn út í hött að ætla að hér renni saman tvær
helgisagnir sem upphaflega voru aðskildar (sjá bls. 238). Pseudo-Abdias og
þar með Jakobs saga A eru fulltrúar sagna sem byggjast á fáeinum atriðum
úr vita og passio postulans, trúboði hans og dauða. Jakobs saga B, ásamt
Codex Calixtinus, eru fulltrúar sömu sagna, að því viðbættu að í þeim er
réttlætt hvernig á því stóð að lík hans barst til Spánar, og í því efni stuðst
við seinni helming prédikunar Honoriusar d’Autun. Einnig er réttlætt í
Jakobs sögu B hvers vegna pílagrímsferðir til Santiago de Compostela séu
mikilvægur þáttur í lífi kristinna manna, en það atriði byggist hins vegar
ekki á Honoriusi.
Frásaga Pseudo-Abdiasar af Passio sancti Iacobi Apostoli filii Zebedei ligg-
ur til grundvallar þeim textum sem hér eru til umfjöllunar. Allnokkur
munur er á frásögu hans og frásögninni í Codex Calixtinus um sama efni.
Norræna þýðingin fylgir á hinn bóginn Pseudo-Abdiasi nákvæmlega þótt