Gripla - 20.12.2010, Page 255
255
í síðari hluta greinarinnar beina sjónum að því er segir frá Jakobi í lok
TPSJ+J, en það eru kraftaverk hans (kaflar 95–119, Unger, 680–707).
Sagan af Jakobi í Tveggja postula sögu Jóns og Jakobs veitir allgóða sýn
yfir þær sagnir sem virðast hafa verið í umferð um síðarnefnda postulann á
miðöldum. Þær sögur er einnig að finna í Codex Calixtinus, en það eru:
1) Jakobs saga postula er byggist á frásögn Pseudo-Abdiasar, nema þáttur-
inn um líkferðina og frúna Lupa er byggist á annarri frásögn sem finna má
í seinni helming prédikunar Honoriusar d’Autun. 2) Frásaga af Karla-
magnúsi, sem að eggjan postulans fer í stríð gegn heiðingjum á Spáni, og
hefur sú saga verið nefnd Pseudo-Turpin eða Turpinskrónika, eins og áður
er komið fram. 3) Sögur af kraftaverkum þeim sem gerðust fyrir tilstuðlun
Jakobs eftir dauða hans og eru þær settar fram í sérstakri bók, Jar teikna-
bók.
Áður en ég sný mér að kraftaverkunum sýnist mér nauðsynlegt að fara
fáeinum orðum um þýðinguna á Jakobs sögu postula eins og hún liggur
fyrir í Tveggja postula sögu Jóns og Jakobs. Í því sambandi er vert að benda á
að ógerlegt er að greina á milli þýðanda rits, ritstjóra þess eða afritara. Á
miðöldum var rit þýtt, en hin upprunalega þýðing glataðist í nær öllum til-
vikum og verður því að styðjast við afrit af henni. Og eðlilega vaknar þá sú
spurning hve miklu þýðandinn leyfði sér að breyta? Eða þá afritararnir sem
tóku við hver af öðrum? Þegar svo ritstjóri safnaði verkum saman í því
augnamiði að gera úr þeim stórt safnrit, hversu langt gekk hann í að breyta
eða láta breyta? Hver og einn gegndi sínu hlutverki, og allir höfðu þeir að
leiðarljósi að betrumbæta ritið, þætti þeim ástæða til, en því er nú verr að
ekki er unnt að sjá eða greina hver þeirra bar ábyrgð á hverju varðandi hinar
ýmsu breytingar sem ritið varð fyrir. Þó er til forritið að Tveggja postula
sögu Jóns og Jakobs, AM 239 fol., en Ólafur Halldórsson telur að það sé
aðeins fáum árum eldra en Skarðsbók.32
Óneitanlega er athyglisvert að inn í Tveggja postula sögu Jóns og Jakobs er
skotið stöku setningum á latínu sem eru síðan þýddar. Við nánari athugun
kemur í ljós að setningarnar eru tilvitnanir úr Biblíunni. Einnig kemur í
ljós að tilvitnanirnar eru allar fyrir hendi í texta Pseudo-Abdiasar og því að
líkindum ættaðar þaðan. En þetta atriði vekur engu að síður spurningar. Er
32 Ólafur Halldórsson, Sögur úr Skarðsbók, 27. Unger tekur mið af þessu handriti neðanmáls í
útgáfu sinni á sögunni og kallar það A2. Unger, XII.
JAKOBS SAGA POSTOLA