Gripla - 20.12.2010, Page 269
269
breytt um tón. Tónninn breytist einnig þegar upphrópanir eru notaðar, en
þó nokkuð er um upphrópanir í jarteiknasögum Codex Calixtinus, eins og
þegar hafa komið fram dæmi um.
Mira Dei uirtus, mira Christi clemencia, mira beati Iacobi subsidia!
(Codex, 266).
O misericordie uiscera!
O uenerabile certamen clemencie!
Quam magnificata sunt opera tua, domine! (Codex, 267).41
Eins og gefur að skilja verður sú frásögn ekki hlutlæg sem inniheldur upp-
hrópanir og hneigist til að skýra allt ofan í kjölinn. Frásagnaraðferðin sem
notuð er í norrænu þýðingunni byggist einmitt á hinu gagnstæða, á vissri
hlutlægni og trausti á lesandanum. Auk þess eru jarteiknasögur hennar
ósjaldan fléttaðar af meiri hagleik og mætti nefna sem dæmi kafla XI í
Codex Calixtinus (273), en hann samsvarar kafla 104 í TPSJ+J (Unger, 691).
Í þessum tveimur köflum kemur vel fram munurinn á frásagnarhætti þess-
ara tveggja rita. Samkvæmt Codex er Calixtus páfi skrásetjari þessarar sögu
og atburðurinn sem hún greinir frá á að hafa gerst árið 1105. Sagt er frá
ítölskum manni er Bernardus heitir. Tekið er sérstaklega fram að hann hafi
verið frá Corzano, stað sem sé að finna í biskupsdæminu Modena.
Bernardus er tekinn höndum af óvinum sínum og kastað í fjötrum „in
profundo cuiusdam turris“. Úr myrkrastofunni í turninum ákallar hann
Jakob postula sem birtist honum, losar af honum fjötrana og hverfur svo á
braut, en segir áður við Bernardus að hann skuli fylgja sér til Galicia: „Ueni
sequere me usque ad Galleciam“. Síðan er farið hratt yfir sögu, pílagrím-
urinn fer efst upp í turninn og stekkur fram af brúninni án þess að meiðast
og þykir sögumanni merkilegt að hann skuli hafa sloppið lifandi eftir svo
hátt fall. Frásögnin endar svo á þessari setningu:
A domino factum est istut et est mirabile in occulis nostris. Regi
regum sit decus et gloria in secula seculorum. Amen. (Codex, 273).42
41 Dýrðlegi máttur guðs, dýrðlega miskunn Krists, dýrðlega liðveisla hins sæla Jakobs!
Ó, miskunnsama hjarta! Ó, göfuga barátta miskunnseminnar! Hve stórbrotnar eru gjörðir
þínar, drottinn!
42 Þetta gerðist fyrir tilstuðlan drottins og er undursamlegt í vorum augum. Vegsemd og dýrð
sé konungi konunganna um aldir alda. Amen.
JAKOBS SAGA POSTOLA