Gripla - 20.12.2010, Side 272
GRIPLA272
er þessum tveimur sögum haldið það vel aðgreindum í framvindunni að
þær flækjast lítið hvor fyrir annarri.
Safnrit eins og Skarðsbók postulasagna veitir innsýn inn í hvernig svona
rit voru hugsuð og unnin. Bókin hefur átt að geyma ,,allt“ sem vitað var um
tiltekna postula og er Jakob þar engin undantekning. Safnritum var auðvit-
að ætlað að lifa lengi og þess vegna varð að vanda sem mest og best til
þeirra, ekki aðeins hvað útlit varðaði, heldur einnig framsetninguna. Því
varð ekki hjá komist að færa bókina ,,í nútímabúning“, en handritið er talið
vera frá 14. öld.
Þótt ekki sé hægt að sýna það svart á hvítu, má ætla að sá hluti
Skarðsbókar sem fjallar um Jakob postula og byggist á Pseudo-Abdiasi, sé
ný og sjálfstæð þýðing. Latneski textinn sem þýtt var eftir, og skín í gegn,
gefur vísbendingu um það. Í meginmálinu er að finna glefsur á latínu og er
aðallega um að ræða biblíutilvitnanir. Augljóst er að sá sem fékkst við frá-
sögu Pseudo-Abdiasar, eins og hún birtist í Skarðsbók, hafði latneska text-
ann af henni undir höndum. Þar með er ekki sagt að ritstjóri eða afritari
Skarðsbókar hafi skotið inn þessum setningum á latínu, þær hafa ef til vill
verið til staðar í forriti sem Skarðsbók var unnin eftir. En sé um að ræða
nýja þýðingu, hver svo sem gerði hana, verður ekki annað séð en þýðandinn
álíti sig nokkuð óbundinn af frumtextanum. Hann leyfir sér ýmist að
lengja hann eða stytta, og að því er virðist eftir eigin höfði. Hann grípur
einnig til málskrúðs og skýringa sem kannski segja lítið. Ekkert slíkt er að
finna í frumtextanum. Raunar er Tveggja postula saga Jóns og Jakobs ekki
þýðing í eiginlegri merkingu þess orðs, heldur endursköpun á Pseudo-
Abdiasi.
Á hinn bóginn er sú Jakobs saga sem ég hef nefnt A raunveruleg þýðing
á Pseudo-Abdiasi og reyndar ágætlega unnin. Hún nefnist í útgáfu Ungers
(524), eins og áður hefur verið greint frá, Tillæg – Passio sancti Jacobi apost-
oli og lítur út fyrir að vera helgisögn sem ætluð sé til lesturs á messudegi
postulans. Úr því að Unger setur A-gerðina á eftir B-gerðinni í útgáfu
sinni, virðist sem hann líti svo á að A sé stytting á B. En þessu er einmitt
öfugt farið eins og hefur verið reifað hér að framan. B-gerð Jakobs sögu
fylgir A-gerðinni nánast frá orði til orðs hvað varðar uppistöðu frásagnar-
innar, en við B-gerðina hefur verið aukið inngangskafla og aukakafla sem á
rætur að rekja til seinni helmings prédikunar Honoriusar d’Autun. Þessi
gerð hefur að geyma söguna um flutninginn á líki postulans til Spánar,