Gripla - 20.12.2010, Side 273
273
greftrun hans þar í landi og helgi Dómkirkjunnar í Santiago de Compostela,
en það eru allt atriði sem breyta yfirbragði Jakobs sögu A sem frásögnin er
reist á. Í þeirri sögu er aðeins greint frá lífshlaupi (vita) postulans, og písl-
arvætti hans. Því er ekki að neita að Jakobs saga B virðist skrifuð í þeim
tilgangi, auk hins trúarlega, að örva pílagrímsferðir til Santiago de
Compostela. Er hér á ferð einskonar „áróður“. Athyglisverðast við Jakobs
sögu B er að hún varðveitir og sýnir mjög greinilega samruna tveggja
helgisagna, en sá samruni átti sér stað á miðöldum. Önnur sagði frá lífi,
trúboði og píslardauða postulans, hin frá flutningnum á líki hans og greftr-
un á Spáni. Ég tel að Jakobs saga B sé fulltrúi fyrir hina upprunalegu frá-
sögn eins og hún varð eftir að helgisögurnar tvær runnu saman. En því er
ekki þannig háttað í Codex Calixtinus og kemur sá samruni hvergi fram.
Það væri ekki einu sinni hægt að koma auga á hann, þrátt fyrir góðan vilja,
því að frásögnin af lífshlaupi Jakobs í Codex Calixtinus og síðan flutning-
urinn á líki hans til Spánar eru tvær vandlega aðskildar frásagnir, þær til-
heyra ekki einu sinni sömu bók, sú fyrri þeirri fyrstu og sú seinni þeirri
þriðju. En þrátt fyrir að Jakobs saga B sé að hluta af annarri hefð en Jakobs
saga A er skyldleiki þeirra náinn.
Þótt um það bil tvær aldir skilji að handritin Codex Calixtinus og Skarðsbók
postulasagna, þar sem Tveggja postula sögu Jóns og Jakobs er að finna, og
innihald þessara safnrita sé um margt ólíkt, hafa þau engu að síður ákveðin
sameiginleg einkenni hvað miðlun efnisins varðar. Eins og Sverrir Tómas-
son hefur bent á má skýra mismun í frásagnarhætti og stíl í Skarðsbók á
þann hátt, að mismunandi eða misgömul handrit liggi að baki.45 Augljóst er
að ekki er alltaf sami frásagnarstíllinn notaður í Tveggja postula sögu Jóns og
Jakobs og er framangreind skýring einmitt sú sem beinast liggur við. En þó
verður einnig að hafa í huga að um sambræðslu tveggja ólíkra texta er að
ræða og hlýtur það einnig að hafa haft áhrif á yfirbragð stílsins. Þá hefur og
haft áhrif á frásagnarstílinn sú staðreynd að um safnrit er að ræða, rit sem
ætlunin var að gera sem veglegast úr garði eins og áður var vikið að.
Codex Calixtinus inniheldur margar ræður og hómilíur, og eru þær pláss-
frekar, um það bil helmingur verksins, en á því sést að reynt hefur verið að
45 Sverrir Tómasson, „Kristnar trúarbókmenntir í óbundnu máli“, Íslensk bókmenntasaga I,
ritstj. Guðrún Nordal, Sverrir Tómasson og Vésteinn Ólason (Reykjavík: Mál og menning,
1992), 446–447.
JAKOBS SAGA POSTOLA