Gripla - 20.12.2010, Page 275
275
ulafrásagnir eða þættir hafa að líkindum verið notaðir meira til hvunndags-
brúks og við ýmsar trúarathafnir en stóru safnritin, jafnvel þótt gert sé ráð
fyrir að þau hafi verið í eign kirkju eða klausturs. Einnig má gera ráð fyrir
að fólk hafi að meira eða minna leyti kunnað þessar sögur, að minnsta kosti
þekkt þær, og var meira en að segja það að hrófla við frásögnum sem þegar
höfðu hlotið fastan sess í lífi fólks. Öðru máli gegndi þegar farið var að fella
þær inn í stærri rit þar sem ekki aðeins trúarlegur heldur mjög ákveðinn
listrænn metnaður bjó að baki, og fengu kannski annað hlutverk en þær
höfðu upphaflega haft. Þá hverfur hin einfalda og látlausa frásögn sem
hafði haldið tryggð við latnesku frumtextana og tillærð mælskulist heldur
innreið sína. Það er því ekki ósvipaður andi sem knýr áfram frásögurnar í
Codex Calixtinus og sögu Jakobs postula í TPSJ+J, þó að nærri tvær aldir
skilji þær að og önnur sé á latínu og hin á íslensku.
Enginn vafi leikur á að Jarteiknabók Codex Calixtinus og Jarteiknabók
Tveggja postulasögu Jóns og Jakobs eru af sama meiði, enda er um sömu frá-
sagnir að ræða. Óvíst er þó hvort forritið að hvoru verki fyrir sig hafi verið
alveg sömu gerðar, en eftirtektarvert er að uppistaðan í báðum jarteikna-
bókunum er sú sama og svo er einnig að hluta um röð jarteiknanna. Það
virðist sem ekki hafi verið lagt í breytingar á borð við þær sem gerðar voru
á öðrum frásögnum þessara rita og verið var að reifa hér að framan.
Mælskulistin hefur sig ekki á loft í jarteiknabókunum og belgir út textann.
Í þeim er verið að segja frá staðreyndum, atburðum sem höfðu átt sér stað
á miðöldum í lífi fólks. Samkvæmt frásögninni í Codex Calixtinus eru
atburðir þessir, jarteiknirnar, nánast samtímaatburðir, enda rík áhersla lögð
á ártöl og manna- og staðarnöfn. Þetta eru vitnisburðir fólks sem sá og lifði
eða heyrði um kraftaverkin.
Eins og fram er komið taka jarteiknasögurnar í Tveggja postula sögu Jóns
og Jakobs ósjaldan fram sömu sögum í Codex Calixtinus hvað frásagnarlist
varðar. Meira virðist lagt upp úr góðri frásögu í fyrrnefnda ritinu en því
síðarnefnda. Þótt ekki sé unnt að sýna fram á það á óyggjandi hátt, tel ég að
yfirskriftirnar í Codex Calixtinus yfir hverju kraftaverki um sig, og einnig
ártölin, séu seinni tíma viðbætur og að Jarteiknabók Tveggja postula sögu
Jóns og Jakobs sé upprunalegri, ef svo má að orði komast. Hún sé upp-
runalega afmarkað og sjálfstætt verk. Ef litið er til íslenskra safnrita sem
innihalda postulasögur, virðist sem ritstjórarnir hafi ekki alltaf raðað efninu
JAKOBS SAGA POSTOLA