Gripla - 20.12.2010, Page 276
GRIPLA276
samkvæmt forskrift tiltekinnar bókar, heldur hafi þeir látið eitthvað annað
ráða ferðinni, til dæmis eigin áhuga á ákveðnum postulum, áhuga þeirra
sem pöntuðu safnritið, eða þá að þeir hafi orðið að láta sér nægja efni það
sem hægt var að ná í með góðu móti. Hvað varðar frásagnir eins og Jakobs
sögu A eða Jakobs sögu B, þykir mér líklegt að þær hafi lifað sjálfstæðu lífi
þangað til þær voru lokaðar inni í safnritum. Einnig sýnist mér að
Jarteiknabók Codex Calixtinus og Jarteiknabók Tveggja postula sögu Jóns og
Jakobs hafi verið hvor um sig sjálfstætt verk þangað til safnritin gleyptu
þau. Og þá þykir mér meira en líklegt að fyrri hluti formálans að ritinu
mikla Codex Calixtinus hafi upphaflega aðeins verið formáli að jarteiknabók
postulans Jakobs, eins og hann er í Tveggja postula sögu Jóns og Jakobs.
Munurinn á jarteiknabókunum tveimur, í Codex Calixtinus annars
vegar og hins vegar í Tveggja postula sögu Jóns og Jakobs, er einkum fólginn
í eftirtöldum atriðum:
1) Ártöl og fyrirsagnir er ekki að finna í Jarteiknabók TPSJ+J, á hinn
bóginn er hvorttveggja notað í Codex Calixtinus. 2) Upphaf og endir hvers
kraftaverks eru sjaldan samhljóða í þessum tveimur ritum og er ég á því að
um sé að ræða viðbætur og breytingar sem hafa verið gerðar á texta Codex
Calixtinus. 3) Einnig tel ég að megi skrifa á reikning ritstjóra Codex
Calixtinus eða forritara hans allar upphrópanir og flestar ofskýringar sögu-
manns. Sagt er frá á mun hlutlausari hátt í Jarteiknabók Tveggja postula sögu
Jóns og Jakobs. Hvort verk um sig birtir ólíka afstöðu gagnvart því sem kalla
mætti innrætingu.
Í jarteiknabók TPSJ+J er innrætingin hógvær og traust borið til skiln-
ings lesandans eða hlustandans á efninu. Frásögnin í Jarteiknabók Codex
Calixtinus er meira uppáþrengjandi, þyngri áhersla lögð á tilfinningalegt
uppnám. En ómögulegt er að vita hvort þýðandinn, sem þýddi Jarteiknabók
Tveggja postula sögu Jóns og Jakobs, hafi séð sig knúinn til að laga frásögnina
og færa til betri vegar, að hans mati, eða hvort latneski textinn sem hann
þýddi eftir var betur saminn en sá sem varðveist hefur í Codex Calixtinus.
Þótt Codex Calixtinus sé talið elsta handritið sem til er af Liber Sancti Jacobi,
er það ekki, eins og áður er getið, eina handritið sem til er af því verki. Ég
tel ekki sérstaka ástæðu til að velta fyrir sér hvort Liber Sancti Jacobi hafi
borist til Norðurlandanna í svipuðu formi og lengd og Codex Calixtinus.
Það er ekki margt sem bendir til þess. Hins vegar tel ég ástæðu til að benda