Gripla - 20.12.2010, Page 282
GRIPLA282
Hugmynd Ramskou hefur náð mikilli hylli og í ýmsum ritum má nú sjá
því haldið fram að sæfarar víkingatímans hafi beitt sólarsteini sem sigl-
ingatæki (sjá tilvitnanir í grein Hegedüs o. fl. 2007). Þessi hylli er þó tæp-
ast verðskulduð því að engar fornar heimildir eru til um slíka notkun, og
víst er að steinninn einn sér gagnast ekki við siglingar á rúmsjó því að hann
gefur ekki sólarhæð, heldur aðeins lárétta stefnu (azimut) til sólarinnar
(Schnall 1975; Þorsteinn Vilhjálmsson 1990 og 2001; Roslund og Beckman
1994).
Heimildir um sólarsteina eru afar litlar að vöxtum. Þær eru einkum
tvær: Rauðúlfs þáttur, sem fyrr er getið og er smásaga um Ólaf helga, og
Hrafns saga Sveinbjarnarsonar, sem fjallar um ævi Hrafns Sveinbjarnarsonar
á Eyri við Arnarfjörð. Höfundar beggja sagna eru ókunnir. Frásaga Hrafns
sögu af sólarsteininum kemur einnig fram í öllum fjórum gerðum Guð-
mundar sagna góða (Stefán Karlsson 1983, 175; 2000). Auk þessara heim-
ilda er sólarsteina getið í máldögum nokkurra íslenskra kirkna og eins
klausturs (sjá síðar).
Þegar rýnt er í Rauðúlfs þátt og Hrafns sögu kemur í ljós að þessar sögur
eru ekki allar þar sem þær eru séðar. Báðar eru með áberandi helgiblæ og
Rauðúlfs þáttur ber auk þess sterk einkenni allegórískra sagna (Schnall
1975; Faulkes 1966; Árni Einarsson 1997). Allegórísk skrif voru algeng á
miðöldum og langt fram á nýöld (Barney 1989). Merkingu allegórískra
texta var komið til skila með vel skilgreindum táknum (symbol) sem oftast
voru fólgin í tilvísunum í hluti, liti, áttir, form, tölur eða eitthvað álíka.
Táknin voru stöðluð, en oft þurfti sérþekkingu til að ráða þau. Íþrótt höf-
undarins var fólgin í því að miðla visku til þeirra sem voru á sama plani og
hann en segja jafnframt sögu sem allir gátu notið. Oftar en ekki var hin
táknræna viska í trúarlegum farvegi, enda var kirkjan ráðandi afl í menn-
ingu miðaldasamfélagsins.1 Frelsi til að túlka allegóríuna var ekki mikið,
táknin voru of stöðluð til þess að leyfa mikil frávik, og heimsmyndin, sem
túlkunin hlaut að byggja á, var einnig í föstum skorðum (Whitman 1987).
1 Klerkar lögðu einnig stund á að lesa boðskap úr ritningunni og fylgdu þá hefðum sem
kirkjufeðurnir höfðu mótað. Táknin og líkingamálið sem fylgdi þeim var hið sama og við
frumsamningu allegórískra rita og var órjúfanlegur hluti af katólskri messugjörð, hér á landi
sem annars staðar. Eru stólræðurnar í Íslensku hómilíubókinni ágætur vitnisburður um það
(sjá Smalley 1983 og Sigurbjörn Einarsson o. fl. 1993).