Gripla - 20.12.2010, Page 287
287SÓLARSTEINNINN. TÆKI EÐA TÁKN?
Stahl 1990, 105–107; Alanus ab Insulis í Sheridan 1980, 145). Inntak sýn-
arinnar er þá þetta: Höfuðskepnurnar skunda í átt til upplausnar þar sem sætt
þeirra er rofin og óreiða nær yfirhöndinni. Þetta er kosmískur feigðarboði og
í stíl við hið upphafna álit söguritara á Hrafni Sveinbjarnarsyni, en að því
verður vikið síðar. Þegar allir þræðir koma saman virðist einfaldasta túlkun
á riddurum Hrafns sögu vera tímaskil og endalok. Þeir boða aldurtila Hrafns,
en vísun táknanna er hádramatísk og heimsendaleg.
Við þetta er því að bæta að sagan leggur einkennilega áherslu á hvernig
riddararnir miða spjótunum milli eyrna reiðskjótum sínum. Tekið er fram
að hestarnir stefna í vestur, svo að spjótin benda þangað einnig og undir-
strika vesturáttina. Höfuðáttirnar fjórar báru allar djúpa táknmerkingu
sem tók mið af sólargangi og ímyndaðri samsvörun hans við mannsævina.
Austuráttin var tákn sólaruppkomu og fæðingar, vesturáttin var átt sólset-
urs og dauða. Tengsl vesturs og dauða eru m. a. að finna í Íslensku hóm-
ilíubókinni (Sigurbjörn Einarsson o. fl. 1993, 52–53) og þar er að finna
margvíslegt annað efni um táknmerkingu höfuðáttanna fjögurra.
Allt ber því að sama brunni um eðli loftsjónarinnar og augljóst að
Þorbjörn karlinn er ekki allur þar sem hann er séður.
Loftsjónin sýnir vel að Hrafns saga er gagnskotin allegórísku efni þar
sem m. a. er leikið með göngu himintungla. Sagan öll, þar á meðal sólar-
steinninn, þarf því að skoðast með mögulega táknmerkingu í huga.
Í sögunni er ekki greint frá eðli sólarsteinsins. Lesandanum virðist
ætluð sú vitneskja. Steinninn kemur einkum við sögu eftir víg Hrafns.
Vegendur hans taka steininn með sér en láta hann liggja eftir í fjörunni er
þeir ýta úr vör því að þeir sjá ekkert óvenjulegt við hann. Sögumaðurinn
kveður það vera vegna þess að steinninn er runninn frá Guðmundi góða, en
eins má skilja söguna táknrænum skilningi: Sól Hrafns er gengin til viðar,
en vígamennirnir eru slegnir blindu á guðlegt eðli hans. Þeim var ekki gefin
andleg spektin, svo notuð séu orð Snorra úr Eddu (Úlfar Bragason 1988;
Ásdís Egilsdóttir 2004; sjá einnig Foote 1956).
Svo kann að virðast sem túlkun þessara allegórísku dæma úr Hrafns
sögu sé dramatískari en sagan gefi tilefni til. Þá er á það að líta að fleiri fyr-
irboðar í sögunni eru á kosmískum nótum. Eyjólf Snorrason dreymdi t. d.
tungl jafn mörg og stjörnur á himni „sum full en sum hálf, sum meir en
sum minnur, vaxandi og þverrandi”, og tákna þau, skv. vísu sem kveðin er
í kjölfarið, sálir syndugra manna, sem hvarfla heima á milli (Örnólfur