Gripla - 20.12.2010, Page 289
289SÓLARSTEINNINN. TÆKI EÐA TÁKN?
var kringlótt með fjórum útdyrum og var jafnlangt milli þeirra allra. Henni
var skipt í fjórðunga, en einnig var hún þrískipt á þann hátt að í miðju var
kringlóttur pallur með rekkju þeirri er konungur svaf í. Þar fyrir utan var
afgirtur hringur þar sem aðalsmenn og klerkar sváfu, en í ysta hring sváfu
óbreyttir hirðmenn. Á rekkju konungs voru tólf kertaljós, þrjú á hverjum
rúmstólpa. Yfir húsinu miðju var hvolfþak, og þar var sköpunarverkið
málað innan á. Í miðju var guð almáttugur og englasveitir hans, þá himin-
tungl, þá ský og vindar og yst og neðst jörð og sær. Enn utar, á þakinu utan
við hvolfþakið voru málaðar sögur af fornkonungum. Það furðulegasta við
húsið var að það snerist með sólargangi.
Ítarleg athugun á þeim táknum sem leikið er með í þessu sambandi
leiðir í ljós að svefnskemma Rauðúlfs er allegórísk og hugsuð sem mynd af
alheiminum (Árni Einarsson 1997, 2001 og 2005). Ólafur konungur sefur
í rúmi sem samkvæmt heimsmynd síns tíma er ætlað Kristi. Áhrif þessarar
tengingar á lesanda eru þau að Ólafur er sem upphafinn til guðlegrar tignar.
Sú verkun er alkunn og nefnist apóþeósis á fagmáli, og hafa þjóðhöfðingjar
og aðrir mektarmenn beitt slíkum brögðum öldum saman.
Samband húss (svefnskemmu) og mannslíkama (á róðunni) sýnir vel að
höfundur þáttarins var vel að sér í þeirri trú samtíma síns að maðurinn væri
örheimur, míkrókosmos, sem endurspeglaði hinn stærri heim, makrókos-
mos (sjá t. d. Kurdzialek 1971 og Bernardus Silvestris. Cosmographia).
Samsvörun manns og heims gerir það að verkum að um leið og svefn-
skemman táknar alheiminn táknar hún einnig manninn, samsettan af sál og
líkama. Sálin og andinn búa innst í mannslíkamanum. Það gerir Kristur
einnig samkvæmt guðfræðinni, svo að lesandi sér glöggt, kunni hann að
lesa táknmálið, að þar fer allt saman: Kristur, Ólafur helgi og mannssálin.
Öllu þessu er listilega fléttað saman í Rauðúlfs þætti. Ef vel er að gáð kemur
í ljós að mikið af táknmáli þáttarins er byggt á sólinni og göngu hennar yfir
daginn og árið. Táknmál þetta var vel þekkt og er notað hvað eftir annað í
Íslensku hómilíubókinni (Árni Einarsson 2001). Schnall (1975) og Loescher
(1981) túlkuðu Rauðúlfs þátt svo að svefnskemman væri forboði Kirkjunnar
og er óhætt að taka undir það.