Gripla - 20.12.2010, Síða 290
GRIPLA290
María
Það er morguninn eftir þessa viðburðaríku nótt, þegar Ólafur helgi hefur á
táknrænan hátt stigið úr rekkju Krists, að hann bregður upp sólarsteini og
sér hvar geislaði úr honum. Skyldi það vera hluti af táknmáli sögunnar?
Flestum, sem um sólarsteininn rita, ber saman um að hann hafi verið
kristall af einhverju tagi sem hleypir ljósi í gegnum sig.6 Með hliðsjón af
atburðarás Rauðúlfs þáttar, sólartáknum í svefnskemmunni og færni höf-
undar í allegórískri frásagnarlist verður meira en sennilegt að sólarsteinn-
inn sé táknrænn. Í ítarlegri grein frá 1956 færði Peter Foote rök fyrir því að
sólarsteinninn hafi verið slípaður beryllium kristall sem gat verkað sem
safngler. Slíkir kristallar voru notaðir í Evrópu til að tendra páskaljósið í
kirkjum. Uwe Schnall (1975) hafnaði þessari skýringu í riti sínu um sigl-
ingar víkinga og telur þennan sið bundinn við Bretlandseyjar, einkum
Írland. Hann tók upp þráðinn frá ritgerðum Joan Turville-Petre (1947) og
Anthony Faulkes (1966) sem bentu á að lýsing svefnskemmunnar kæmi
heim við lýsingar á bústað sólar í erlendum fornritum. Schnall áttaði sig á
því að sólartengingin leiðir til samjöfnuðar Ólafs helga og Krists og að
Rauðúlfs þáttur væri því eins konar helgisaga. Schnall dró síðan þá ályktun
að sólarsteinninn hlyti að vera alfarið táknrænn og stakk uppá að hann hafi
verið karbúnkúlus, táknrænn steinn sem víða kemur fyrir sem sólartákn í
miðaldaritum og gæti í þessu tilviki átt við rúbínstein. Úlfar Bragason
(1988) velti síðar upp þeim möguleika að sólarsteinninn í Hrafns sögu hafi
átt að tákna Maríu mey. Þessi hugmynd Úlfars verður að teljast mjög
sennileg. María guðsmóðir átti sér ótal myndir. Hún var hinn lukti garður
Ljóðaljóðanna. Hún var liljan, rósin, leiðarstjarnan og mánagyðjan. Eins og
Úlfar bendir á er ein af kunnari myndunum líking Maríu við gler. Ekki er
alveg ljóst hvaðan sú líking er runnin, en hún er stundum ranglega eignuð
Ágústínusi (Breeze 1999). Líkingin kemur m. a. fyrir í Íslensku hómilíu-
bókinni7 og Lilju og felst í því að glerið hleypir sólargeisla í gegnum sig, og
bæði glerið og geislinn halda hreinleika sínum. Sólargeislinn er þá Kristur,
önnur alþekkt líking.
6 Hluti af Hrafns sögu rataði inn í Guðmundar sögur biskups. Í GD-gerð síðarnefndu sög-
unnar, eftir Arngrím Brandsson (Stefán Karlsson 2000, 167), er talað um sólarsteininn sem
„náttúraðan kristallum“, þ.e. kristal með vissa eiginleika, sjá Foote (1956).
7 „En geislinn skín í gegnum glerið og hefir bæði birti sólskins og líkneski af glerinu. Svo
hefir og Drottinn vor, Jesús Kristur, bæði guðdóm af Guði, en manndóm af Maríu.”
(Sigurbjörn Einarsson o. fl. 1993, 9).